Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
05. september. 2006 11:56

Akraneskaupstaður hækkar laun þrjátíu starfsmanna sinna

Bæjarráð Akraness hefur samþykkt að hækka laun um þrjátíu starfsmanna bæjarins. Meirihluti bæjarráðs segir þetta gert í samræmi við meirihlutasamkomulag Sjálfstæðisflokks og Frjálslynda flokksins. Málið átti að vera trúnaðarmál en var að lokum gert opinbert. Fulltrúi minnihlutans telur að launamál eigi ekki að vera launungarmál. Formaður Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar segist ósáttur við málsmeðferðina.

 

 

 

 

Á fundi bæjarráðs Akraness í síðustu viku kynntu bæjarráðsmenn meirihluta bæjarstjórnar tillögu um hækkun launa þeirra starfsmanna bæjarins er taka laun samkvæmt launaflokkum 115, 116 og 117 kjarasamnings bæjarins og Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar. Tillagan, sem var lögð fram sem trúnaðarmál, var samþykkt.

 

Sveinn Kristinsson bæjarráðsmaður Samfylkingarinnar lét bóka að hann teldi samþykktina óheppilega. Vísaði hann til þess að í vor samþykkti bæjarstjórn samhljóða að verða við tilmælum Starfsmannafélags Akraness um að ef félagið sameinaðist Starfsmannafélagi Reykjavíkur myndu bæjaryfirvöld samþykkja fyrir sitt leiti að kjarasamningar yrðu á hendi hins sameinaða stéttarfélags. Mikilvægt sé að þessar viðræður félaganna verði til lykta leiddar áður en bæjaryfirvöld hafa afskipti af kjaramálum félagsins enda sé kjarasamningur í gildi. Þá kemur fram í bókun Sveins að hann telji nauðsynlegt að hækka laun hinna lægstlaunuðustu hjá bænum en telur sameiningu stéttarfélaganna farsælli leið til þess. Þá kemur fram í bókuninni að hann telji að launa- og kjaramál eigi ekki að vera launungarmál og mótmælti hann því að gögn um málið skuli stimpluð trúnaðarmál.

 

Meirihluti bæjarráðs færði þá til bókar að fram komi í meirihlutasamkomulagi Sjálfstæðisflokksins og Frjálslynda flokksins að eingöngu sé vilji til þess að hækka laun þeirra sem eru lægst launaðir, enda séu samningar í gildi til ársins 2008.

 

Karen Jónsdóttir formaður bæjarráðs vildi í samtali við Skessuhorn á föstudag ekki gefa upp hvaða starfsmenn fengju launahækkanir. Aðspurð hvers vegna launahækkun til hóps starfsmanna bæjarins væri trúnaðarmál sagði hún það gert að ráðleggingu þar til bærra aðila. Að öðru leyti vildi hún ekki tjá sig um málið og vísaði á Gísla S. Einarsson bæjarstjóra.

 

Sveinn Kristinsson bæjarráðsmaður minnihlutans sagðist í samtali við Skessuhorn á föstudag ekkert geta tjáð sig um efnisatriði samþykktarinnar þar sem málið væri trúnaðarmál. Hann ítrekaði furðu sína á því hvers vegna óskað væri eftir trúnaði um slík mál. Vísaði hann þá til þess að ekki ættu allir flokkar fulltrúa í bæjarráði. Því stæði bæjarstjórn afar einkennilega þegar málið kæmi þar til afgreiðslu. Þar stæðu menn frammi fyrir þeirri spurningu hvort loka ætti þeim bæjarstjórnarfundi fyrir almenningi og hvort upplýsa ætti aðra bæjarfulltrúa um málið. Málið væri flausturslegt og afar illa grundað. Pukur í launamálum einstakra hópa bæjarstarfsmanna gæti einfaldlega ekki gengið upp.

 

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri sagði í samtali við Skessuhorn í gær að hækkun sú sem bæjarráð samþykkti næði til um 30 starfsmanna og væri miðuð við síðustu áramót. Hækkunin væri á bilinu 2,5-3%. Samkvæmt útreikningum Skessuhorns nemur hækkunin um fjögur til fimm þúsund krónum á mánuði. Gísli segir fjölmörg fordæmi þess að farið sé með launamál einstakra hópa sem trúnaðarmál og því hafi verið ákveðið að fara þá leið. Eftir bókun Sveins Kristinssonar í bæjarráði hafi verið ljóst að ekki væri hægt að halda þann trúnað. Því hefði trúnaði verið aflétt. Hann sagði meirihluta bæjarstjórnar hafa strax í upphafi ákveðið að hækka lægstu laun og ekki hafi verið ástæða til þess að bíða með það.

 

Valdimar Þorvaldsson formaður Starfsmannafélags Akraneskaupstaðar segist í samtali við Skessuhorn að sjálfsögðu alltaf fagna launahækkunum. Hann segist þó afar ósáttur við þá málsmeðferð sem beitt hafi verið í þessu máli. Þá segir hann að samkvæmt sínum upplýsingum sé ekki um hækkun taxta að ræða heldur eingreiðslur utan taxta sem komi fólki ekki til góða í rétti til eftirlauna. Slík málsmeðferð sé ekki farsæl. Valdimar segir að meðal þeirra starfsmanna sem laun breytist nú séu starfsmenn við ræstingar, starfsfólk íþróttamannvirkja og starfsmenn í Gámu svo einhverjir séu nefndir.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is