Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
07. september. 2006 01:58

Segir formann VLFA treysta á málflutning atvinnurekenda

Fulltrúi Samfylkingarinnar í bæjarráði Akraness segir eðlilegt að félagsmenn í Starfsmannafélagi Akraness ráði örlögum sínum sjálfir og ekki sé mikil reisn yfir því að að þiggja launabætur með sérstökum samþykktum stjórnmálamanna. Hann undrast að formaður Verkalýðsfélags Akraness skuli helst treysta á málflutning harðsnúnasta samningamanns atvinnurekenda.

 

 

Í  frétt Skessuhorns um hækkun launa til um 30 starfsmanna Akraneskaupstaðar gagnrýndi Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness Svein Kristinsson fulltrúa Samfylkingarinnar í bæjarráði Akraness harðlega fyrir að hafa bókað að hann teldi sameiningu starfsmannafélaga Akraness og Reykjavíkur farsælli leið til hækkunar lægstu launa. Taldi Vilhjálmur samþykkt bæjarráðs Akraness nú staðfesta þá skoðun sína og Karls Björnssonar sviðsstjóra kjarasviðs Sambands íslenskra sveitarfélaga í vor að sameining áðurnefndra stéttarfélaga muni aðeins hækka laun þeirra er hæst laun hafa. Þessi skoðum Vilhjálms á bókun Sveins koma einnig fram á heimasíðu Verkalýðsfélags Akraness.

 

Sveinn Kristinsson segir að áðurnefnd starfsmannafélög séu í sameiningarviðræðum og telji að með því geti þau náð betri kjörum fyrir sína félagsmenn. Slíkt sé ekki óþekkt á Akranesi og vísar til þess þegar verslunarmannafélagið á Akranesi var sameinað VR. Í framhaldinu hafi VR opnað hér öfluga skrifstofu sem sinni þjónustu við félagsmenn sína.

 

„Stærsta málið í þessu samhengi er auðvitað að samningur launanefndar var ekki betri en svo að í hann var bætt með sérstakri eingreiðslu síðastliðinn vetur og svo hafa ýmis sveitarfélaög verið að pukrast með frekari launabreytingar síðan, meðal annars viðbót við eingreiðslurnar. Þetta hefur verið gert til að jafna kjör ákveðinna hópa við samninga hjá Reykjavíkuborg. Eflaust má núna finna einstök dæmi eftir þessar breytingar um að heildarlaun þeirra lægstlaunuðu hjá Starfsmannafélags Akraness séu orðin hærri en hjá Reykjavíkurborg. Ég minni hins vegar á þá staðreynd  að af þessum eingreiðslum sem renna út 2008 eru engar lífeyrissjóðsgreiðslur og þær skapa engan rétt“ segir Sveinn.

 

Aðspurður hvort ekki sé eðlileg sú skoðun Vilhjálms um að stuðla að stærra og sterkara félagi hér á Akranesi segist Sveinn vel skilja félagsmenn í Stak vilji treysta rétt sinn í stærra félagi. „Mér finnst ekki mikil reisn yfir þeirri leið, sem formaður Verkalýðsfélags Akraness mælir með, að þiggja launabætur með sérstökum samþykktum stjórnmálamanna og maula þannig einhverja mola úr lófum þeirra. Mér finnst að allt slíkt eigi að vera samningsbundið og launafólki þar með tryggður fullur réttur“

 

Sveinn segir það vekja furðu sína að heimasíða verkalýðsfélagsins sé lögð undir pólitískar árásir á sig. „Ég kveinka mér ekki undan umræðum við formann félagsins en velti fyrir mér hvort það sé með vilja félagsmanna formaður leggi heimasíðu félagsins undir pólitískar árásir á menn. Ekki vekur það minni furðu mína að Vilhjálmur  kallar Karl Björnsson hjá launanefnd sveitarfélaga sífellt til vitnis í málflutningi sínum. Mér finnst það athyglisvert að forystumaður í verkalýðsfélagi skuli helst treysta á málflutning einhvers harðsnúnasta samningamanns atvinnurekenda gegn launafólki. Karl Björnsson gagnrýndi samninga Reykjavíkurborgar hart  því hann vissi að þeir færðu launafólki meiri kjarabætur en samningur launanefndar sem menn hafa sífellt verið að stoppa í.

Er ekki eðlilegt að félagsmenn í Stak ráði sínum örlögum sjálfir og láti á það reyna hvort sameining við Reykvíkinga tekst? Það er hins vegar alveg ljóst að Vilhjálmur er á biðilsbuxunum gagnvart Stak og var víst hryggbrotinn og það getur auðvitað haft áhrif á skapsmunina“ segir Sveinn að lokum.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is