13. september. 2006 12:31
Vestnorden ferðakaupstefnan var að þessu sinni haldin hér á landi í 21. skipti, hófst í gær og lauk í dag. Kaupstefna þessi er á vegum ferðamálayfirvalda á Íslandi, Grænlandi og í Færeyjum. Um 550 manns tóku þátt í kaupstefnunni að þessu sinni og kynntu um 300 ferðaþjónustuaðilar frá Íslandi, Grænlandi og Færeyjum, auk ferðamálayfirvalda á Hjaltlandseyjum, vöru sína og þjónustu fyrir hátt í 200 kaupendum sem koma frá 30 löndum víðs vegar um heiminn. Hefur kaupendunum fjölgað um 40% frá síðustu kaupstefnu hér á landi árið 2004 enda ferðalög til Norður Atlantshafslandanna alltaf að verða vinsælli. Má t.d. nefna að meðal nýrra þátttakenda nú eru kaupendur frá Kína, Indlandi og Suður-Kóreu.
www.westiceland.is
Frá Vesturlandi fóru fulltrúar 25 ferðaþjónustufyrirtækja og kynntu þjónustu í landshlutanum. Fyrirferðamest, eða á þreföldum bási á sýningunni, var kynning All Senses hópsins en að honum standa um 20 ferðaþjónustufyrirtæki á Vesturlandi. Einnig voru með sérstaka bása hótelin í Stykkishólmi og Borgarnesi, Hótel Búðir og Sæferðir.
“All Senses hópurinn kynnti við þetta tækifæri nýja heimasíðu, www.westiceland.is sem er kynningarsíða hópsins á ensku. Síðar í vetur verður hún einnig á íslensku. Þá kynntum við kynna þrjú megin þemu, þ.e. gistingu, veitingasölu og afþreyingu á Vesturlandi. Einnig bentum við ferðakaupendum á möguleika í ferðatilhögun um landshlutann,” segir Þórdís Arthúrsdóttir, framkvæmdastjóri All Senses hópsins í samtali við Skessuhorn.
Þórdís segir að á vegum All Senses hópsins standi til að halda námskeið 9. og 10. október í haust þar sem gæðamál í ferðaþjónustu verði til umfjöllunar auk sölumála erlendis.