Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
15. september. 2006 02:36

Unnur og Hjörtur kveðja Shellstöðina í Borgarnesi

Í dag urðu rekstraraðilaskipti að Shellstöðinni í Borgarnesi og hætta þar með hjónin Unnur Halldórsdóttir og Hjörtur Árnason rekstri stöðvarinnar sem þau hafa haft með höndum í rúm 9 ár. Auglýst var eftir nýjum rekstraraðilum í ágústmánuði og hefur Skeljungur nú samið við sömu eigendur og eiga m.a. Grillhúsið við Tryggvagötu um að taka við rekstrinum. Í vetur verður farið í stórfelldar breytingar; núverandi verslunarhús rifið og byggt nýtt 500 fermetra hús á lóðinni sem hýsir bæði Select verslun og veitingastað fyrir 100 manns undir merkjum Grillhússins í Borgarnesi.

 

 

Select og Grillhúsið

 

Örn Guðmundsson og Hafsteinn Häsler reka nokkra veitingastaði á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. Grillhúsið við Tryggvagötu, Geysi bistro bar við Aðalstræti og ítalska veitingastaðinn Rossopomodoro við Laugaveg. Þeir eru því hnútum vel kunnugir í rekstri veitingastaða. En hvað fær þá félaga til að taka við rekstri Shellstöðvarinnar í Borgarnesi og færa um leið kvíarnar út fyrir höfuðborgarsvæðið? Örn verður fyrir svörum: „Við sjáum mikil tækifæri hér í Borgarnesi og höfum trú á því að íbúum fari fjölgandi og umferð eigi eftir að aukast hér um. Fram kom í samningaviðræðum okkar við Skeljung að til stendur að byggja nýtt hús yfir starfsemi Skeljungs og sjáum við tækifæri samhliða byggingar nýrrar Selectverslunar, þar sem verða almennar ferðavörur, hraðþjónusta og skyndibitastaður, að vera með sjálfstæðan og myndarlegan veitingastað við hliðina þar sem við getum tekið a.m.k. 100 manns í sæti.” Hafsteinn Häsler segir að rífa eigi núverandi hús Skeljungs og reka sjoppu og eldsneytisafgreiðslu í 50 fm bráðabirgðahúsi í þrjá mánuði í janúar til mars. “Stefnan er að opna góðan veitingastað hér í Borgarnesi þann 1. apríl og teljum við að aukna fjölbreytni í veitingaframboð vanti hér á staðnum. Við verðum með heitan mat í hádeginu og góða breidd á matseðlinum í anda Grillhússins og mun veitingastaðurinn því heita Grillhúsið Borgarnesi,” sagði Örn. Bróðir Hafsteins, Hans Gerald Häsler, matreiðslumaður mun verða rekstrarstjóri Select og Grillhússins í Borgarnesi.

 

Á vel við mannblendið fólk

 

Þau hjón Unnur og Hjörtur sem nú kveðja Shellstöðina segjast fegin að geta nú einhent sér að hótelreksturinn, en eins og margir vita reka þau Hótel Hamar ofan Borgarness og sjá auk þess um rekstur farfuglaheimilis og félagsaðstöðu í golfskálanum að Hamri. Þau hófu byggingu nýja hótelsins haustið 2004 og opnuðu vorið 2005 fyrsta golfhótelið hér á landi. Frá fyrsta degi hefur verið mikið að gera á hótelinu og ágæt nýting verið á því allt árið. Samhliða þessum framkvæmdum hafa þau rekið Shellstöðina og því lagt að baki langa vinnudaga undanfarin misseri. Hjörtur og Unnur voru af starfsfólki sínu kvödd með virktum síðasta rekstrardaginn, með blómakörfu og kveðskap eftir Bjartmar bónda á Norðurreykjum. “Við kveðjum þennan vinnustað með ákveðnum söknuði en leynum þó ekki ákveðnum létti því það er of mikið að reka til lengdar tvo ólíka staði samtímis og viljum við því fara að eiga okkur eitthvað líf utan vinnunar,” segir Unnur.

 

Þau hjón eru sammála um að sá tími sem þau hafa rekið Shellstöðina hafi verið skemmtilegur og ekki síður gefandi þar sem starfsemin sé fjölþætt og reyni á marga þætti í skipulagningu og þjónustu. “Þó að við höfum komið víða við þá höfum við aldrei verið í jafn fjölþættu og gefandi starfi eins og því sem felst í rekstri svona verslunar og veitingastaðar þar sem jöfnum höndum er verið að elda mat, afgreiða flutningabílstjóra, gefa upplýsingar, selja ís og svo fram eftir götunum. Hér höfum við kynnst mörgu skemmtilegu fólki, bæði starfsfólki og ekki síður þeim fjölmörgu sem hér eiga leið um. Þetta hefur átt vel við okkur þar sem við erum mannblendin og finnst gaman ef tími gefst til að setjast niður með gestunum og spjalla. Við höfum á þessum tíma kynnst mörgum og metum ekki síður að við höfum lært mikið inn á okkur sjálf. Loks má ekki gleyma því að eðli svona starfsemi er að vinna mikið með ungu fólki, en eins og margir vita þá er aldur starfsfólks í verslun og þjónustu alltaf að verða lægri. Nú látum við semsagt þessum kafla í lífi okkar lokið og ætlum að sinna hótelrekstrinum eins vel og kostur er næstu árin,” sagði Unnur Halldórsdóttir að lokum.

 

 

Á myndinni halda þau Unnur og Hjörtur á körfu sem starfsfólk staðarins færði þeim með ýmsu góðgæti og kveðskap í kaupbæti. Við hlið þeirra eru þeir Hans Gerald Häsler rekstrarstjóri og eigendurnir Örn Guðmundsson og Hafsteinn Häsler.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is