Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. september. 2006 08:28

Fjölmenni í Þverárrétt - minnst Ásmundar á Högnastöðum

Fjölmenni var saman komið í dag í fjárflestu rétt landsins, Þverárrétt í Þverárhlíð. Davíð Aðalsteinsson, réttarstjóri telur að um 19 þúsund fjár hafi verið í réttinni að þessu sinni. Réttarhald gekk ágætlega í hæglátu og hlýju haustveðri.

Gestir í Þverárrétt minntust Ásmundar Eysteinssonar, bónda á Högnastöðum sem lést sl. fimmtudag 86 ára að aldri. Hann var þjóðþekktur fyrir hversu fjárglöggur hann var og enginn Íslendingur fyrr né síðar hefur kunnað betri skil á hrossa- og fjármörkum. Á réttarveggnum í Þverárrétt er ætíð flaggað á réttardag, en Ásmundi til heiðurs var flaggað í hálfa stöng að þessu sinni. 

Andlát:

 

Ásmundur Eysteinsson frá Högnastöðum

 

Ásmundur fæddist og ólst upp á Höfða en bjó lengst af á Högnastöðum, sunnan Litlu Þverár, fyrst með foreldrum sínum en eftir það með bróður sínum Daníel, allt þar til þeir fluttust á Dvalarheimilið í Borgarnesi síðla á liðinni öld. Ásmundur hélt fram á síðustu stundu góðum tengslum við fólkið sitt og heimahagana og víst er að hans verður víða saknað.

 

Með Ásmundi er genginn einstakur maður og mikill öðlingur. Landsþekktur var hans óbilandi áhuga á sauðfé og hrossum sem hann þekkti betur en nokkur annar. Um margt var hann fróður og viðræðugóður var hann með ágætum enda naskur að afla sér fregna. Ásmundur bar hag sveitanna og bænda fyrir brjósti og náði sá áhugi langt út fyrir sýslumörk. Lengi var hann skilamaður t.d. í Dölum og Húnavatnssýslum og þótti bændum þar ekki síður en Borgfirðingum sérstakur fengur af heimsókn hans þegar ragast var með fé eða hross og bera þurfti kennsl á hverjum málleysingjarnir tilheyrðu. Þá var ekki þörf fyrir prentaða markaskrá. Þekktastur var hann því fyrir einstaka þekkingu sína á mörkum og kunni vafalaust skil á fleiri hrossa- og sauðfjármörkum en nokkur annar Íslendingur fyrr og síðar. En mörk þurfti hann ekki að sjá til að vita hvaðan féð kom. Sönn er frásögn af því þegar skera þurfti kind í leit að hausti og gangnamenn vildu sannreyna hversu fjárglöggur Ásmundar væri. Tóku þeir hausinn af kindinni, sýndu honum skrokkinn og báðu hann að giska á frá hvaða bæ hún kæmi. Ekki þurfti hann að giska, heldur vissi hann það strax.

 

“Frá fyrstu tíð fór ég að þekkja blessaðar kindurnar frá hinum einstöku bæjum, já og hrossin líka, því á þeim tíma voru hrossin líka á heiðinni. Ég hafði ágætlega góða sjón og er sennilega nokkuð glöggur. Ég sá fljótt að skepnur höfðu sitt svipmót og það var ólíkt frá bæ til bæjar; það átti við um hvorutveggja sauðféð og hrossin,” sagði Ásmundur í viðtali sem birtist hér í Skessuhorni fyrir réttu ári síðan, þegar hann var beðinn að lýsa því hvenær þessi mikli áhugi hans á búfénaði kviknaði, en það mun hafa verið strax á barnsaldri. Síðan þá ræktaði hann þessa hæfileika sem gerði vitneskju hans einstaka á þessu sviði og mannþekkjari var hann ekki síður góður. Fjárgleggni hans kom oft að góðu gagni t.d. á haustin þegar fé var slátrað í miklu magni í Borgarnesi en þar starfaði Ásmundur mörg haust í réttinni. Þá var sama hvaðan af Vesturlandi fé var flutt til slátrunar; hann þekkti af langri fjarlægð af ullinni eða svipmótinu einu saman hvaðan flutt var um leið og féð rann í réttina af bílunum. Í mörgum tilfellum þekkti hann sláturféð betur en bændur sjálfir og gat í stöku tilfellum leiðrétt þannig að lagt yrði inn á rétta fjáreigendur.

 

Í fyrrgreindu viðtali við Ásmund kom fram að frá fimm ára aldri hafði hann einungis tvisvar sinnum ekki getað komist í Þverárrétt; haustið 1934 þegar hann var vinnumaður á Laxfossi og haustið 1993 þegar hann vann við slátrun í Borgarnesi. Þannig fór ekki á milli mála að eitthvað þýðingarmikið vantaði í Þverárrétt sl. mánudagsmorgun og engu líkara en bændur og búalið væru þar hljóðari en oft áður. Allir sem kynntust Ása minnast þessa fallna höfðingja með virðingu. Það vantaði mikið að sjá hann ekki lengur á vaktinni á sínum gamla stað við Höfða- og Högnastaðadilkana.

MM

 

 

Útför Ásmundar verður gerð frá Borgarneskirkju, miðvikudaginn 27. september.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is