Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
19. september. 2006 06:51

Árleg bílferð 4x4 félaga með íbúa sambýlanna og fleiri

Síðastliðinn laugardag fór Ferðaklúbbur 4x4 á Vesturlandi með skjólstæðinga Svæðisskrifstofu um málefni fatlaðra í árlega jeppaferð. Í blankalogni, sól og hita lögðu 18 bílar af stað frá heimilum skjólstæðinga á Akranesi og Borgarnesi og héldu sem leið lá upp í Borgarfjörð. Ekið var inn Lundarreykjadal og upp á Uxahryggi til Þingvalla. Eftir gott stopp við þjónustumiðstöðina á Þingvöllum var ekinn útsýnisrúntur um Þingvelli. Þá var ekið í gegnum Kjósarskarð, inn í Hvalfjörð og að Bjarteyjarsandi þar sem ábúendur tóku á móti hópnum og grillaðir voru hamborgarar. Blaðamaður Skessuhorns fékk að slást í för með hressum hópi sem ljómaði af kátínu og lífsgleði eins og þessu fólki eru einu lagið.

 

Svo skemmtilega vildi til að með í för var innfæddur Lunddælingur, Áslaug Þorsteinsdóttir, sem leiðsagði hópinn inn allan Lundarreykjadal. Hún fræddi ferðalanga um heiti bæja, ýmis kennileiti og aðrar merkar upplýsingar tengdar búháttum í dalnum. Fékk hún mikið lof fyrir.

 

Það var árið 2002 sem nokkrir félagsmenn jeppaklúbbs 4x4 á Vesturlandi komu fram með hugmynd að ferð sem þessari og létu þá strax til skarar skríða. Aðspurður segir Hjalti Njálsson, einn félagsmanna 4x4, ferðirnar hafa gengið vonum framar öll árin og vonast klúbburinn til að ferðin verði farin árlega áfram. Hann segir alla félagsmenn boðna og búna til að leggja sitt að mörkum og aldrei hafi verið skortur á bílum, þó stundum hafi þurft að bæta við bílum kvöldið áður en farið yrði vegna aukinnar aðsóknar skjólstæðinga í ferðina. Hjalti segir alla þátttakendur skemmta sér konunglega, bílstjórarnir ekki síður en skjólstæðingarnir, enda einstaklega lífsglaðir og skemmtilegir einstaklingar sem ekið sé með.

 

Hápunktur ferðarinnar verður svo fyrir jól þegar klúbburinn heldur gestunum kaffisamsæti þar sem sýnd er kvikmynd frá ferðinni. Heimilum þeirra og vinnustöðum eru einnig færð eintök af myndinni svo hægt sé að horfa á hana hvenær sem heimlisfólki sýnist.

 

Aðspurðar segja tvær starfsstúlkur sambýlanna á Akranesi og í Borgarnesi þetta framtak einsdæmi. “Alveg einstakt framtak, það er fátítt orðið í okkar samfélagi að svona góðverk skuli unnið, að fólk hreinlega gefi sér tíma til þess,” segja þær. Einnig segja þær skjólstæðingana farna að hlakka til ferðarinnar langt fram í tímann, ferðin lifi lengi í minni þeirra og kunni þeir svo sannarlega vel að meta hana. “Þetta fólk hefur húmor sem við hin getum lært af. Það er svo mikill léttleiki sem það hefur, fólkið er svo einlægt og þau segja manni alltaf ef þeim líkar ekki eitthvað og láta það svo sannarlega í ljósi ef þeim líkar, enda ljóma þau öll hér í dag,” bæta þær við.

Þá vill 4x4 klúbburinn koma sérstökum þökkum til eigenda Verslunarinnar Einars Ólafssonar og ábúenda á Bjarteyjarsandi fyrir framlag þeirra til ferðarinnar.

 

Í prentútgáfu Skessuhorns, sem kemur út á morgun miðvikudag, er fjöldi mynda frá ferðinni og rætt við ferðalangana þakklátu.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is