Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. september. 2006 02:20

Óánægja með ástand vega í Hvalfjarðarsveit

Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar hefur falið sveitarstjóra að hafa samband við Vegagerðina og þrýsta á um að malarvegir í sveitarfélaginu verði heflaðir reglulega. Sigurður Sverrir Jónsson sveitarstjórnarmaður og atvinnubílstjóri flutti tillögu um málið og var hún samþykkt samhljóða.

Sigurður Sverrir ekur skólabíl innan sveitarfélagsins og því manna kunnugastur um ástand malarvega á sinni akstursleið. Hann sagði í samtali við Skessuhorn að vegirnir væru mjög slæmir í Svínadalnum og í Leirársveit og raunar væri alveg sama hvaða malarvegur það væri innan sveitarinnar. Þá mætti alla bæta með heflun.

 

Sigurður Sverrir segir eiginkonu sína, sem einnig sér um akstur skólabarna, hafa haft samband við Vegagerðina í Borgarnesi og spurt hvers vegna malarvegir í Hvalfjarðarsveit væru ekki heflaðir og hefði fengið þau svör að enginn veghefilsstjóri sé við störf í Borgarnesi.

 

„Vegir eru almennt ekki heflaðir í takt við þá miklu umferð sem um þá fer og ástandið hér er ekkert einsdæmi. Það væri til dæmis fróðlegt að fá upplýsingar um hve oft malarvegir í Hvalfjarðarsveit hafa verið heflaðir á síðustu tólf mánuðum,” sagði Sigurður Sverrir.

 

Fjármagn stýrir framkvæmdum

Þegar Bjarni H. Johansen þjónustustjóri Vegagerðarinnar í Borgarnesi var spurður um málið sagðist hann vita að vegheflun væri ábótavant á öllu Vesturlandi, vegirnir væru allir í misgóðu ástandi. Þó væri alveg sama í hvaða sveitarfélagi fólk byggi, allir teldu sinn veg þann versta á öllu landinu. Bjarni sagði Vegagerðina leita til verktaka með heflun takist starfsmönnum stofnunarinnar ekki að vinna verkið. Því geti verið að þegar áðurnefndur bílstjóri fékk svarið um mannekluna hafi það verið reyndin. Hjá Vegagerðinni veikist menn og fari í barneignarleyfi eins og í öllum öðrum fyrirtækjum og ekki fáist alltaf heimild til að ráða starfsmenn í staðinn. „Verkum er forgangsraðað en við lítum þó til mikilla umferðarhelga, veiðitímabila, rétta og þess háttar þegar viðhald vega er skipulagt hjá okkur,” sagði Bjarni. Hann segði einnig  að malarvegir innan Hvalfjarðarsveitar hefðu verið heflaðir í sumar en ekki reglulega frekar en aðrir vegir. „Það rignir ekki reglulega eins og hvert mannsbarn veit og því er ekki hægt að hefla eftir dagatali. Ef allir malarvegir eiga að vera í mjög góðu ásigkomulagi þarf meira fjármagn. Fjármagn sem veitt hefur verið í vegheflun og rykbindingu hefur ekki dugað. Oft eru vegirnir verstir við brýr og ristarhlið sem fyrir löngu hafa lokið hlutverki sínu. Þar eru oft verstu holurnar og mestra viðgerða þörf. Við höfum óskað eftir því að sum þessi ristarhlið verði fjarlægð, en án árangurs. Ábúendur og jarðaeigendur við malarvegi mættu sumir stundum líta í eigin barm og vera fúsari til samstarfs við okkur,” sagði Bjarni.

Bjarni segist vel skilja óánægju þess fólks sem fara þurfi um slæman veg og það kannski oft á dag. „Ég er því innilega sammála að ekki er skemmtilegt að aka um svona vegi og starfsmenn Vegagerðarinnar vilja gjarnan geta gert betur, en ég tel að á Vesturlandi séu til mun verri malarvegir en í Svínadal og á mörgum þeirra er mun meiri umferð. Við tökum vel á móti öllum upplýsingum og kvörtunum um ástand vega og reynum að gera það sem við getum til að bæta ástand þeirra,” sagði Bjarni að lokum.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is