Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. september. 2006 11:58

Forval vekur spurningar um byggingu ökugerðis á Akranesi

Frá undirritun viljayfirlýsingarinnar í vor.
Samgönguráðuneytið hefur ákveðið að efna til forvals vegna hugsanlegs reksturs ökugerðis. Með forvalinu er ætlunin að velja fjárhagslega og tæknilega hæfa aðila sem keppa myndu um rekstur ökugerðis með einkaleyfi eða sérleyfi í huga í þrjú til fimm ár. Undirbúningur við stofnun ökugerðis í samvinnu Akraneskaupstaðar og Ökukennarafélags Íslands er í fullum gangi. Ekki er þó víst að sérleyfi verði úthlutað.

 

 

 

Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns á sínum tíma undirrituðu Sturla Böðvarsson samgönguráðherra, Guðbrandur Bogason formaður Ökukennarafélags Íslands og Guðmundur Páll Jónsson þáverandi bæjarstjóri Akraness þann 24. apríl viljayfirlýsingu um stofnun og rekstur aksturskennslusvæðis á Akranesi sem í daglegu tali er nú nefnt ökugerði. Um er að ræða fyrirtæki sem byggir og rekur sérhannað aksturskennslusvæðis og sagði í yfirlýsingunni að hönnun þess og starfsemi muni taka mið af væntanlegri reglugerð ráðuneytisins um slík kennslusvæði.

 

Í viðtali Skessuhorns við bæjarstjóra kom fram að með undirritun væri lokið löngu undirbúningsferli og undirbúningur að byggingu svæðisins gæti hafist af fullum krafti. Var rætt um að bæjarfélagið legði til um 5-6 hektara lands undir starfsemina. Talið var að framkvæmdakostnaður gæti orðið um 200 milljónir króna og að hluthafar í hinu nýja félagi yrðu allir þeir aðilar sem láta sig bætt umferðaröryggi varða og vonaðist bæjarstjórinn til þess að á næstu 12-14 mánuðum tæki form fyrirtækisins og rekstur þess taka á sig endanlega mynd. Við undirritunina kom fram að í framtíðinni myndu allir ökunemar á landinu reyna sig á þessu svæði á Akranesi.

 

Í síðustu viku gaf samgönguráðuneytið úr fréttatilkynningu þar sem fram kom að í væntanlegri reglugerð um rekstur ökugerðis væri gert ráð fyrir að allir ökunemar þyrfti frá og með ársbyrjun 2008 að verða sér úti um reynslu í slíku ökugerði. En ekki er sjálfgefið að slíkt ökugerði rísi á Akranesi. Fleiri aðilar, þar á meðal fleiri sveitarfélög, skoða nú möguleika á byggingu slíkra ökugerða. Fráleitt er þó talið að mörg slík geti borið sig á landinu. Í fréttatilkynningu ráðuneytisins kemur fram að til þess að kanna áhuga þeirra, sem hugsanlega vilja reka ökugerði, verði efnt til forvals sem kynnt verður nánar á næstunni. Segir í tilkynningunni að ætlunin sé að velja fjárhagslega og tæknilega hæfa aðila sem keppa myndu um rekstur ökugerðis með einkaleyfi eða sérleyfi í huga í þrjú til fimm ár. Ekki er gert ráð fyrir fjárframlögum frá stjórnvöldum heldur yrði kostnaðurinn greiddur af ökunemum framtíðarinnar. Þrátt fyrir þetta segir orðrétt í fréttatilkynningunni: „Verði niðurstaða forvalsins sú að margir lýsa sig tilbúna til að taka að sér slíkan rekstur er hugsanlegt að fallið verði frá hugmyndinni um sérleyfi“.

 

Bergþór Ólason aðstoðarmaður samgönguráðherra segir í samtali við Skessuhorn að samkvæmt samkeppnislögum sé ekki leyfilegt að veita einkaleyfi eða sérleyfi nema að undangengnu forvali. Með forvalinu komi í ljós hverjir eru best í stakk búnir til að standa fyrir slíkum rekstri. Eðli málsins samkvæmt sé því ekki hægt að slá neinu föstu um niðurstöðu slíks útboðs. Hann efast samt ekki um að Ökukennarafélag Íslands og Akraneskaupstaður hafi ákveðið forskot vegna þess undirbúningsstarfs sem þar hefur verið unnið.

 

Guðbrandur Bogason formaður Ökukennarafélagsins segir stefnu félagsins að halda áfram samstarfi við Akraneskaupstað og undirbúningur málsins í fullum gangi og sér ekkert því til fyrirstöðu að starfsemi á Akranesi geti hafist í ársbyrjun 2008. Starfsmenn Akraneskaupstaðar hafa undanfarna mánuði unnið að skipulagsmálum vegna byggingu ökugerðisins. Gísli S. Einarsson bæjarstjóri segir að Ólöf Guðný Valdimarsdóttir arkitekt hafi á dögunum kynnt skipulags- og byggingarnefnd bæjarins fyrstu hugmyndir sínar að staðsetningu og útliti ökugerðisins og hafi nefndin falið henni að vinna áfram að málinu. Málið sé því í réttum farvegi og verði undirbúningi þess haldið áfram af fullum krafti.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is