Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
25. september. 2006 02:26

Bátasafn Breiðafjarðar fyrirhugað á Reykhólum

Á Reykhólum er nú unnið að því að afla fjár til að koma á fót Bátasafni Breiðafjarðar. Sveitarfélagið hefur samþykkt aðkomu sína að málinu og hafið undirbúning umsóknar til fjárlaganefndar Alþingis um styrk til málsins. Óskar Steingrímsson, sveitarstjóri á Reykhólum, segir að mikill áhugi sé hjá sveitarfélaginu á að koma safninu á fót. Sveitarstjórn hafi líst sig tilbúna til að leggja húsnæði undir safnið, svokallað Mjólkurbú sem nú hýsir m.a. Hlunnindasýningu. Ljóst er hins vegar að byggja þarf við það hús og er talið að það geti kostað um 50-60 milljónir.

 

 

„Við ráðum ekki við slíka fjárfestingu enda nýbúin að reisa íþróttahús fyrir svipaða upphæð,“ segir Óskar. „Þess vegna þurfum við á aðkomu ríkisins að halda og ég mun funda með fjárlaganefnd á  þriðjudag og kynna þeim málið.“ Stofnað hefur verið Félag áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum og hefur það unnið ötullega að málinu. Aðalsteinn Valdimarsson er formaður félagsins, en það var frændi hans, Aðalsteinn Aðalsteinsson í Hvallátrum, sem var upphafsmaður hugmyndarinnar.

 

Hugmyndin um bátasafn er nokkurra áratuga gömul og fyrst var reynt að fá byggt yfir það í Vatnsfirði við Flókalund um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar. Um miðjan tíunda áratuginn var safnið boðið Stykkishólmsbæ að gjöf. Uppistaðan í gjöfinni voru þrír bátar; Egill, Súlan, sem var sveinsstykki Valdimars Ólafssonar í Hvallátrum, föður Aðalsteins Valdimarssonar, og Björg. Þá fylgdu smíðatól Aðalsteins í Hvallátrum með gjöfinni. Það skilyrði var sett að reist yrði hús yfir safnið. Það var ekki talið gerlegt, en boðist var til að hýsa bátana í skemmu sem þegar var fyrir hendi. Því hafnaði Aðalsteinn og byggðasafnið taldi sig ekki geta tekið við gjöfinni með þeim kvöðum sem henni fylgdu. Af þeim sökum horfa áhugamenn um safnið nú til Reykhóla.

 

Aðalsteinn Valdimarsson, formaður áhugamannafélagsins, er sjálfur menntaður skipasmiður, líkt og fram kemur í viðtali við hann í blaðinu. Hann hefur undanfarin ár og áratugi leitað að fleiri bátum sem hafa varðveislugildi. Hann hefur fundið marga merka báta, þeirra merkastan bát sem smíðaður var 1881 eða 1910 af Þorláki Bergsveinssyni í Rúfeyjum, en hann er nú á Ballará á Skarðsströnd. Vitað er af um 20 bátum sem gætu orðið safngripir. Forsvarsmenn áhugamannafélagsins hafa fundað með fulltrúum Þjóðminjasafns Íslands og Safnaráðs, og kom þar fram mikill áhugi á að koma safninu á legg. Þess má geta að Þjóðminjasafnið á nú tvo báta sem eru til húsa í Bátasafni sem Aðalsteinn sér um á Reykhólum, þannig að samstarf er þegar á milli aðilanna.

 

Í greinargerð sem Ásdís Thoroddsen, ritari Félags áhugamanna um Bátasafn Breiðafjarðar á Reykhólum, skrifaði, kemur fram að breiðfirsku bátarnir séu stórmerkilegir. Þetta voru lítil skip, útróðrabátar, grunnskreiðir en ristu þó vel, lotmiklir vegna stórgrýtis í fjörum, en hækkaði þó stefnið þegar hafnir urðu algengar. Fyrir Breiðfirðinga var báturinn þarfasti þjónninn við samgöngur, sjósókn og flutninga eyja á milli. Algengt var að konur sigldu á við karlmenn, stunduðu sjósókn og urðu jafnvel skipstjórnendur.

 

Merk ætt bátasmiða kemur úr Vestureyjum Breiðafjarðar og er hún gjarnan kennd við Ólaf Teitsson sem bjó þar á árunum 1820-1860, en tengdafaðir Ólafs stundaði einnig smíðar. Sonur hans, Eyjólfur frá Sviðnum, var bátasmiður og hagur á alla málma. Hann smíðaði flest þau áhöld sem notuð voru á bátaverkstæðinu í Hvallátrum og fylgdu með gjöf Aðalsteins. Hann smíðaði á verkstæðinu, sem og margir af þessari þekktu ætt bátasmiða, t.a.m. þeir feðgar Valdimar Ólafsson og Aðalsteinn Valdimarsson.

 

Fyrirhugað er að öll tæki og tól Eyjólfs verði til sýnis á Bátasafninu auk bátanna. Þar færi einnig fram bátasmíði þannig að gestir og gangandi geti séð handbragðið. Er það von aðstandenda að safnið verði lyftistöng ferðamennsku á Reykhólum. Um leið mundi það varðveita upplýsingar um forna starfshætti og miðla áfram handbragði liðinna alda, sem ekki má glopra niður. Von þeirra er að sú vitneskja sem býr í huga og höndum síðustu bátasmiðanna verði veitt áfram til komandi kynslóða og Bátasafnið verði menningarlegur bakhjarl slíkrar iðju.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is