Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
27. september. 2006 08:00

Íbúar höfða mál og kvarta til Umhverfisstofnunar

Íbúar af neðri Skaga hafa ákveðið að höfða mál á hendur Akraneskaupstað og undirbúa einnig kvörtun til Umhverfisstofnun vegna vinnubragða Heilbrigðiseftirlits Vesturlands í málefnum fiskþurrkunarfyrirtækisins Laugafisks. Þeir telja Heilbrigðiseftirlitið hafa brugðist skyldum sínum og bæjarfélagið geti ekki mælt með atvinnurekstri sem brjóti lög og reglur. Starfsemin geti auðveldlega farið fram á öðrum stað í sveitarfélaginu þar sem bæjarbúar verði ekki fyrir óþægindum. Framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlitsins kannast við að athugasemdir íbúa. Hann telur að nýtt fyrirtæki í þessari vinnslu fengi ekki vinnsluleyfi á umræddum stað. Heilbrigðisnefnd fundar um málið á morgun.

 

 

Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns hafa málefni fiskþurrkunarfyrirtækisins Laugafisks stöðugt verið til umræðu undanfarin ár. Íbúar á neðri Skaga hafa kvartað hástöfum undan ólykt af starfseminni og í vetur óskuðu þeir eftir því að starfsleyfi fyrirtækisins yrði afturkallað en að óbreyttu rennur það út í apríl 2007. Rannsóknir hafa staðið yfir undanfarið sem áttu að koma í veg fyrir lyktarmengunina. Stjórn Heilbrigðiseftirlits Vesturlands óskaði fyrir nokkru eftir sjónarmiðum bæjarráðs Akraness vegna hugsanlegrar endurskoðunar á starfsleyfinu. Í bókun stjórnarinnar á þeim tíma kom fram að þrátt fyrir viðamiklar rannsóknir þyki ljóst að ekki séu til staðar lausnir sem koma í veg fyrir lyktarmengun fyrirtækja eins og Laugafisks „og einnig þykir ljóst að þær upplýsingar sem forráðamenn fyrirtækisins lögðu fyrir HEV og voru forsendur starfsleyfis fyrirtækisins hafa ekki reynst í samræmi við raunveruleikann og lyktarmengun meiri en forsendur starfsleyfis gera ráð fyrir“ sagði orðrétt í bókun stjórnarinnar. Bæjarráð Akraness tók málið fyrir og lýsti vilja sínum til að fyrirtækið fái áframhaldandi starfsleyfi en hvatt verði til áframhaldandi rannsókna og tilrauna til þess að vinna bug á mengun frá fyrirtækinu.

 

Íbúar á neðri Skaga eru afar ósáttir við ákvörðun bæjarráðs og óskuðu eftir fundi með Gísla S. Einarssyni bæjarstjóra og var hann haldinn 7. september. Á fundinum kom fram að íbúarnir hefðu undanfarin fimm ár að beiðni bæjaryfirvalda beðið eftir lausn á lyktarmengun frá fyrirtækinu án árangurs. Nú væri þolinmæði þeirra þrotin og ekki annað að gera en hefja málsókn.

 

Í minnispunktum bæjarstjóra af fundinum kemur fram að einn íbúanna hafi átt viðræður við starfsmann Rannsóknarstofnunar fiskiðnaðarins þar sem fram kom að hugsanlega væri til búnaður sem gæti tekið megnið af lyktinni við framleiðsluna en fyrirtækið treysti sér ekki til þess að fjárfesta í slíkum búnaði. Fyrirtækið væri hreinlega ekki tilbúið til þess að greiða fyrir nauðsynlegan búnað til rannsókna. Þá segir einnig íbúarnir telji að lykt hafi aukist og sé sterkari en áður og því sé staðan óviðunandi.

 

Guðmundur Sigurbjörnsson einn íbúa er sátu áðurnefndan fund segir í samtali við Skessuhorn að ibúar hafi tekið þá ákvörðun að leita réttar síns fyrir dómstólum vegna málsins því ljóst sé í þeirra huga að fyrirtækið uppfylli engan veginn þær kröfur sem gerðar eru til starfsemi sem þessa. Jafnframt segir hann íbúa hafa ákveðið að leggja fram formlega kvörtun til Umhverfisstofnunar vegna vinnubragða Heilbrigðiseftirlits Vesturlands. Guðmundur segir íbúanna langþreytta. Þeir hafi að beiðni bæjaryfirvalda beðið niðurstöðu rannsókna. Þegar þær liggi nú fyrir og séu að mati heilbrigðiseftirlitsins ekki fullnægjandi taki bæjarráð samt sem áður þá ákvörðun að mæla með áframhaldandi starfsleyfi fyrirtækisins. Í sínum huga sé því ljóst að bæjaryfirvöld séu tilbúin til þess að mæla með lögbrotum á íbúum í stað þess að gera sömu kröfur til atvinnurekstrar og gerðar eru í öðrum bæjarfélögum. „Það er undarleg staðreynd að starfsemi þessari var lokað í Njarðvík vegna mengunar en opnuð hér í staðinn. Önnur bæjarfélög eins og í Þorlákshöfn eru að reyna að koma þessari starfsemi á brott. Hér vilja menn hins vegar treysta starfsemina inn í miðju íbúðahverfi. Við sem búum við þetta höfum ekkert á móti atvinnurekstri sem þessum. Við viljum hins vegar að hann sé staðsettur á stað við hæfi. Nú vill fyrirtækið stækka við sig og þá er upplagt að bæjarfélagið vísi því til dæmis á lóð við Höfðasel eða á annan stað þar sem starfsemin veldur ekki óþægindum“ segir Guðmundur.

 

Hann segir meðmæli bæjarráðs sár vonbrigði fyrir íbúa. „Nýr meirihluti bæjarstjórnar boðaði sókn í umhverfismálum. Eitt af fyrstu verkum þeirra var síðan að mæla með framlengingu starfsleyfis  sem Heilbrigðisnefnd segir ekki í nokkrum tengslum við raunveruleikann. Það eru dapurlegir sóknartilburðir“.

 

Helgi Helgason framkvæmdastjóri Heilbrigðiseftirlits Vesturlands segist í samtali við Skessuhorn hafa heyrt af því að íbúar hafi gert athugasemdir við Umhverfisstofnun en vissi ekki til þess að það hefði verið gert með formlegum hætti. Hann segir málið verða tekið fyrir á fundi heilbrigðisnefndar á morgun. Hann vildi ekki spá um niðurstöðu málsins en sagði nefndina ekki bundna af meðmælum bæjarráðs. Aðspurður hvort staðsetning fyrirtækisins sé ekki óheppileg og hvort fréttir úr öðrum sveitarfélögum bendi ekki til þess að þessi rekstur sé á leið úr þéttbýli segir hann ástandið hjá Laugafiski á Akranesi hafa lagast með árunum. Hins vegar séu kröfur sífellt að aukast og því væri ekki að neita að rekstur sem þessi fengi ekki starfsleyfi á þessum stað í dag.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is