Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
26. september. 2006 03:35

„Niðurstaða kjördæmisþings ekki vantraust á stjórn“

Kjördæmissamband Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi ákvað á fundi á Varmalandi á laugardag að efnt yrði til prófkjörs meðal flokksmanna í kjördæminu um skipan fimm efstu sæta framboðslista flokksins í kjördæminu við næstu Alþingiskosningar. Prófkjörið fer fram með póstkosningu.  Tillaga stjórnarinnar um að tvöfalt kjördæmisþing veldi frambjóðendur var felld með sex atkvæða mun eða 54 atkvæðum gegn 60. Til nokkurra orðaskipta kom á þinginu um málið og féllu þung orð í garð stuðningsmanna prófkjörs.

 

 

Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns í síðustu viku ákvað stjórn kjördæmissambands Framsóknarflokksins að leggja til að tvöfalt kjördæmisþing myndi velja á framboðslista flokksins í kjördæminu. Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður lýsti andstöðu sinni við tvöfalt kjördæmisþing og taldi vænlegra að efnt yrði til prófkjörs.  Þegar til þings var komið voru lagðar fram tvær tillögur um prófkjör auk tillögu stjórnarinnar um tvöfalt kjördæmisþing.  Önnur frá Bolvíkingum undir forystu Sveins Bernódussonar og hin af Dalamönnum sem Hjörtur Einarsson mælti fyrir.

 

Nokkrar umræður urðu um tillögurnar og sagði Gunnar Bragi Sveinsson formaður byggðaráðs Skagafjarðar að hirðar Kristins H. Gunnarssonar treystu sér ekki í heiðarlega baráttu með því að leggja til prófkjör meðal félagsmanna. Nokkrir fundarmanna mótmæltu orðum Gunnars Braga og töldu rétt að grasrót flokksins fengi að velja sér þingmannsefni.

 

Sigurður Árnason formaður kjördæmasambandsins segir í samtali við Skessuhorn að ljóst sé að stjórn sambandsins hafi mislesið vilja kjördæmasambandsins. Hann segist ekki líta á úrslit fundarins sem vantraust á störf stjórnarinnar enda hafi hún þegar hafið undirbúning að kosningunni. Kjörnefnd hefur verið kosin sem starfa mun að kosningunni og þessa dagana er verið að fara yfir líklegar dagsetningar í því sambandi meðal annars við hvaða dagsetningu eigi að miða félagaskrár við. Sigurður segist vonast til að allar dagsetningar liggi fyrir innan skamms og ef allt fer sem horfir geti úrslit í póstkosningunni legið fyrir snemma í nóvember. Hann ítrekar þó að of snemmt sé að slá neinu föstu í því sambandi.

 

Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður segir niðurstöðu fundarins endurspegla svar við erfiðri stöðu flokksins um þessar mundir og því að uppstilling skilaði ekki góðum árangri síðast. Fundarmenn hafi ákveðið að snúa sér til fólksins og grasrótarinnar í flokknum og fela henni að velja á listann. Prófkjör þýði að frambjóðendur reyni að fá fólk til þess að ganga í flokkinn og því fylgi einnig umræða og kynning á flokknum.

 

Eins og áður hefur komið fram hafa Magnús Stefánsson og Kristinn H. Gunnarsson gefið kost á sér til setu í fyrsta sæti listans. Herdís Sæmundardóttir, sem áður hafði tilkynnt um framboð í annað sæti listans, tilkynnti á fundinum á laugardag að hún sæktist einnig eftir fyrsta sæti listans. Þá hefur Valdimar Sigurjónsson gefið kost á sér í þriðja sæti listans.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is