Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
30. september. 2006 11:20

Formaður SVFR er bjartsýnn á næsta veiðisumar á Vesturlandi

“Það er nú býsna margt eftirminnilegt sem gerðist í veiðinni í sumar. Ég held ég gleymi aldrei fyrsta laxinum sem ég setti í að morgni 2. júní. Setti í fallega hrygnu, það kom reyndar í ljós að flugan hafði húkkast í hnakkann á henni. Þetta gerðist uppi á Eyrinni í Norðurá og ég missti hana rétt áður en Þórdís, konan mín, náði að losa úr henni og þá hafði leikurinn borist niður í Kaupamannapoll. Svo átti ég einstaklega skemmtilega veiðiferð seint í ágúst í Norðurá með börnunum mínum. Öll fengum við fallega laxa í þeirri ferð og krakkarnir stóðu sig eins og hetjur. Þetta var bara frábært sumar með fullt af eftirminnilegum atvikum,” segir Bjarni Júlíusson, formaður Stangveiðifélags Reykjavíkur í samtali við Skessuhorn. Félagið hefur margar af bestu ám landshlutans á leigu.

 

Veiðimenn voru með miklar væntingar fyrir sumarið en líklega er laxveiðin ekki nema 40 þúsund laxar þetta veiðisumarið. Bjarni segir að þrátt fyrir að þetta hafi verið nokkuð minni veiði en síðastliðið sumar þegar 55.000 laxar komu á land, þá sé veiðin í sumar talsvert yfir meðaltalinu þegar litið er til tuttugu ára. Stangveiðifélag Reykjavíkur kemur víða við á Vesturlandi. Félagið leigir Andakílsá, Norðurá, Gljúfurá, Hítará, Fáskrúð, Krossá í Dölum, Efri Haukadalsá og Gufudalsá í Gufudal. “Við getum verið býsna sáttir hjá Stangaveiðifélagi Reykjavíkur. Norðuráin skilaði prýðisveiði, eða vel yfir 2.200 laxar. Sama gildir um Hítará þar sem á sjötta hundrað laxa komu á land. Veiðin í Stóru Laxá stefnir í hátt í sex hundruð laxa. Þetta er svo sannarlega viðunandi veiði. Svo er seiðabúskapur víða með miklum ágætum þannig að við erum bjartsýnir á næsta ár.”

 

Kom víða við í sumar

Fyrstu fiskana sína veiddi Bjarni sem polli af “Litlubryggju” í Grundarfjarðarhöfn. “Þar mokveiddum við krakkarnir ufsa, kola og smáþyrskling. En fyrstu silungana fékk ég í Selvallavatni sem er þarna í nágrenninu. Það var mikið stundað, enda mikil veiði og einstaklega hentugt svæði fyrir born.”

 

Bjarni heldur áfram frásögn af veiðisumrinu hjá honum persónulega. “Ég fór norður í Aðaldal og veiddi á Nessvæðinu. Það er einstaklega flottur staður, mikil saga og glæsilegur aðbúnaður. Þarna setti ég í 15 punda hrygnu á Knútsstaðartúni og að sjálfsögðu var henni gefið líf, en þarna er einungis leyfð fluga og öllum laxi sleppt.”

 

Bjarni segir að nú sé hann búinn að leggja laxveiðigræjunum. “Ég á reyndar nokkra daga í sjóbirtingsveiði á Skógarströnd og hver veit nema einn lax slæðist þar með. Svo geri ég ráð fyrir að kíkja aðeins í Hraunsfjörðinn. Það er erfitt að hætta alveg,” segir hann. “Já, Hraunsfjörðurinn á Snæfellsnesi var mikið sóttur af veiðimönnum í sumar. Þar er félagið jafnvel að spá í að gera meira fyrir veiðimenn. Þetta er glæsilegt svæði. Mikil náttúrufegurð og einfaldlega fullt af fiski. Ég er Grundfirðingur og þaðan var jú stutt í Hraunsfjörðinn í gamla daga og svo er móðir mín fædd og uppalin á Seljum undir Bjarnarhafnarfjalli við mynni Hraunsfjarðarins þannig að þarna kíkti maður aðeins við sem polli.”

 

Bjarni segir að handhafar “Veiðikortsins” geti veitt í Hraunsfirðinum. “Okkur langar til að gera eitthvað meira þarna, því svæðið býður uppá alls konar skemmtilega möguleika. Það væri virkilega gaman að geta bætt aðstöðuna fyrir veiðimenn, jafnvel sett upp lítil en huggulegt veiðihús. Við munum án efa skoða hvort ekki sé hægt að útfæra slíkar hugmyndir nánar í vetur.”

 

Vonast til endurkjörs

Nú styttist í aðalfund hjá Stangaveiðifélaginu. Verða spennandi kosningar? “Ég held að félagar í Stangaveiðifélagi Reykjavíkur séu nokkuð sáttir við stöðu félagsins og vonandi ánægðir með störf stjórnarinnar. Við höfum lagt hart að okkur við að byggja félagið upp til framtíðar, endurnýja samninga við veiðiréttareigendur og glímt við að koma netunum upp á Hvítár/Ölfusársvæðinu. Þetta er samhent og góð stjórn og ég einfaldlega vona að við fáum brautargengi til að halda áfram öflugu starfi,” sagði Bjarni Júlíusson, formaður SVFR að lokum.

 

Á myndinni er formaðurinn ásamt eiginkonu sinni með fyrsta lax sumarsins, sem kom á land í Norðurá að morgni 2. júní.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is