Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. desember. 2006 07:18

Fyrsti sunnudagur í aðventu er í dag

Desemberfasta er í kristnum sið hugsuð sem undirbúningstími fyrir fæðingarhátíð Frelsarans. Hún heitir á latínu adventus sem merkir "tilkoma". Af því er smíðað tökuorðið aðventa og var frá miðri 14. öld notað jöfnum höndum við jólaföstu. Fasta fyrir jól var áður fyrr lögboðin, stundum miðuð við Andrésarmessu 30. nóvember, en oftast fjórða sunnudag fyrir jól. Þaðan eru sprottnir aðventusiðir síðari tíma. Þá mátti ekki borða kjöt og er sá siður líklegast kominn úr kaþólskum sið.

Þessi háttur, að fasta á jólaföstunni, hefur líka haft hagnýtan tilgang. Áður var ekki eins mikið á borðum manna og nú er. Því var gott að spara við sig matinn, til að eiga til hátíðarinnar. Í dag er gildið ekkert síðra. Flest belgjum við okkur út af alls konar kræsingum yfir jól og áramót og höfum gott af því að hvíla magann ögn áður en átökin byrja. 

 

Á aðventunni byrjar nýtt kirkjuár. Fyrsti sunnudagur í aðventu er einnig fyrsti sunnudagur í nýju kirkjuári. Hjá þjóðkirkjunni er litur aðventunnar fjólublár en margir landsmenn tengja rauða litinn við aðventu og jól. Kannski er það tilkomið vegna litarins á búningi jólasveinsins, þess rauða sem Coke fann upp og gerði heimsfrægan. Nú flestir jólasveinar heimsins í rauðum fötum, allavega á hátíðis- og tillidögum.

 

Aðventukvöldin á Íslandi eru nýr siður

 

Ekki er langt síðan farið var að halda aðventukvöld í kirkjum á Íslandi. Blaðamaður Skessuhorns leitaði upplýsinga hjá Sr. Ólafi Skúlasyni, biskup sem var með fyrstu prestum til að innleiða þennan sið. Að hans sögn byrjaði þetta fyrst í Dómkirkjunni í Reykjavík. Það var kirkjunefnd kvenna þar sem stóð fyrir fyrsta aðventukvöldinu. Þetta framtak fór fremur hljótt og engin vakning varð á eftir. En árið 1964 var ákveðið að halda fyrsta aðventukvöldið í Bústaðasókn. Það fór fram með þeim hætti að öll ljós voru slökkt í kirkjunni, en kerti sett á altarið og síðan fékk hver kirkjugestur eitt kerti. Þetta skapaði gífurlega stemningu og varð feykivinsælt. Einnig vakti athygli að ræðumenn voru aldrei úr flokki kirkjunnarmanna, ef svo má segja, og fyrsti ræðumaðurinn á fyrsta aðventukvöldinu í Bústaðasókn, var Bjarni Benediktsson forsætisráðherra, sem þá var nýlega komin heim frá Ísrael. Bjarni talaði alltaf blaðalaust, þegar hann flutti ræður, en menn tóku eftir því að hann var með ræðuna skrifaða þetta kvöld. Hvatinn að þessu öllu var að prestum fannst aðventan vera að týnast og vildu leggja meiri áherslu á hana. Umræðan í samfélaginu var einungis um kaup og verslun og prestar vildu endilega sporna við þeirri þróun og sáu þessa leið til þess. Aðventukvöldin urðu einnig vettvangur fyrir kirkjukóranna til að spreyta sig á öðru en sálmasöng og kirkjur voru að eignast stærri og betri hljóðfæri svo margt lagðist á eitt.

 

Fyrsta aðventukvöldið í Borgarneskirkju var haldið annan sunnudag í aðventu 1982. Víða hjá öðrum þjóðum er þessi siður mun eldri. Margir kannast t.d. við Lúsíuhátíðir sem haldnar eru í Svíþjóð, þær eru margra alda gamlar. Þessi litla þúfa sem fór af stað í Bústaðasókn fyrir rúmlega fjörutíu árum, hefur sannarlega velt þungu hlassi. Fæstir myndu vilja leggja þennan ágæta sið niður nú þegar reynslan hefur sýnt hversu góðar og hlýjar þessar samkomur geta verið.

 

Jólastjarnan

 

Mörgum okkar finnst tilheyra að kaupa jólastjörnu á aðventunni. Hún vex villt í Mexíkó og getur í sínu upprunalega umhverfi orðið allt að 5 metra hár runni. Jólastjarnan sem við þekkjum sem stofublóm hefur orðið til með kynbótum og er gífurlega vinsælt jólablóm hér á landi. Eiginleg blóm Jólastjörnunar eru frekar óspennandi, lítil og gul, en háblöð hennar eru hinsvegar ástæða vinsældanna, en þau verða rauð eða hvít og allt þar á milli. Háblöðin geta haldið litnum mánuðum saman ef lífsskilyrði hennar eru góð. En böggull fylgir skammrifi. Ef brotnar stöngull og safi vætlar úr, skyldi varast að lítil börn komist í tæri við blómið. Safinn er nefnilega eitraður og getur valdið ertingu á húð og í augum.

 

Aðventukransar

 

Annar siður sem hefur rutt sér til rúms er að gera eða kaupa aðventukrans. Aðventukransinn á það sameiginlegt með flestu öðru skrauti sem er gert úr greinum sígrænna trjáa að hann er upprunninn í Þýskalandi eða norður Evrópu. Hið sígræna greni táknar lífið, sem er í Kristi. Hin logandi kerti benda til komu Jesú Krists hins lifandi ljóss. Aðventukransar fóru ekki að vera almennir á Íslandi fyrr en eftir síðari heimstyrjöld. Fyrst birtust þeir sem skraut í einstaka búðargluggum og á veitingahúsum. Þeim fjölgaði hægt en upp úr 1965 fór að sjást meira af þeim í heimahúsum. Nú eru þeir til á nánast hverju heimili.

 

Aðventuljós

 

Þriðja augljósa merki þess að aðventan sé gengin í garð eru aðventuljósin sem hafa rutt sér til rúms hér á landi. Fyrir hver jól má sjá þau prýða glugga landsmanna, til að lýsa upp skammdegið. Hugmyndin um ljósin sjö er komin úr Gamla testamentinu þar sem sjö arma ljósastikan var mikill helgidómur í musterinu. Þar virðist ljósastikan þó hafa verið lárétt og var ekki á almannafæri.

 

Kaupsýslumaður einn í Reykjavík hét Gunnar Ásgeirsson, ættaður úr Önundarfirði. Hann átti mikil skipti við sænsk fyrirtæki og flutti til að mynda bæði inn Volvo og Husquarna. Í einni verslunarferð sinni í Stokkhólmi fyrir jól í kringum 1964 rakst hann á einfalda trépýramída með sjö ljósum og allavegana í laginu. Hér var um að ræða nýjung í Svíþjóð; lítt þekktir smáframleiðendur voru að reyna að koma föndri sínu á framfæri í jólavertíðinni.  Þessi framleiðsla hafði þá ekki slegið í gegn í Svíþjóð og mun ekki hafa gert fyrr en um 1980. Jólastjörnur og litlir stjakar voru þar hin hefðbundna gluggaskreyting á aðventu. Gunnari datt hinsvegar í hug að þetta gæti verið sniðugt að gefa gömlum frænkum sínum slík ljós. Hann keypti þrjú lítil ljós og þau gerðu mikla lukku hjá frænkunum og vinkonum þeirra. Gunnar keypti því fleiri ljós næsta ár til gjafa sem hlutu sömu viðtökur. Þá fyrst fór hann að flytja þetta inn sem verslunarvöru og smám saman þótti það naumast hús með húsi ef ekki var slíkt glingur í gluggum. Þetta fyrirbæri hefur vakið mikla athygli útlendinga sem hingað koma um jólaleytið. Þjóðminjasafnið fær oft upphringingar utan úr heimi vegna þessa og margir Biblíufróðir spyrja hvort gyðingdómur sé mjög rótgróinn á Íslandi. Það þykir sannast sagna heldur snautlegt þegar upplýst er hversu ofur ung og veraldleg þessi skreyting í rauninni er.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is