01. desember. 2006 09:16
Samkvæmt fjárhagsáætlun Akraneskaupstaðar og stofnana hans fyrir árið 2007, sem nú er til umræðu í bæjarstjórn, er áætlað að rekstur bæjarfélagsins verði jákvæður um tæpar 33 milljónir króna og að handbært fé frá rekstri verði tæpar 257 milljónir króna. Við fyrri umræðu um áætlunina voru lagðar fram fjölmargar tillögur frá meiri- og minnihluta bæjarstjórnar og stefnt er að því að seinni umræða fari fram í bæjarstórn 12. desember.
Gert er ráð fyrir að tekjur bæjarfélagsins og stofnana þess verði tæpar 2.402 milljónir króna. Þar af er reiknað með að skatttekjur verði rúmar 1.818 milljónir, framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði 231 milljón króna og þjónustutekjur tæpar 225 milljónir króna.
Stærsti einstaki gjaldaliður sveitarfélagsins er laun og launatengd gjöld eða rúmlega 1.456 milljónir króna. Til þjónustu- og orkukaupa verður varið um 600 milljónum króna og í styrki og framlög verður varið rúmlega 153 milljónum króna. Afskriftir eru áætlaðar rúmar 121 milljónir króna og áætlað er að fjármagnsliðir verði jákvæðir um tæpar 5 milljónir króna. Rekstrarniðurstaða bæjarfélagsins og stofnana þess er því áætluð jákvæð um tæpar 33 milljónir króna eins og áður sagði.