Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. desember. 2006 04:24

Ein glæsilegasta hestamiðstöð landsins er á Mið Fossum

Ný og glæsileg reiðhöll var vígð í gær að Mið Fossum í Andakíl að viðstöddu fjölmenni úr héraði og fleiri góðum gestum. Húsið er byggt úr límtréssperrum og klætt yleiningum frá Límtré - Vírneti hf. Séra Ólafur Skúlason biskup blessaði húsið og starfsemina þar, þeir Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og Ágúst Sigurðsson, rektor LbhÍ fluttu ávörp og ýmsir fleiri kváðu sér hljóðs. Sveinbjörn Eyjólfsson stýrði samkomunni af röggsemi. Söngbræður tóku nokkur lög, Snorri Hjálmarsson á Syðstu Fossum söng svo undir tók í höllinni og ýmislegt fleira var til gamans gert enda dagurinn stór í huga hestamanna í Borgarfirði.

 

Guðni Ágústsson sagði m.a. í ávarpi sínu fagna svo glæsilegri uppbyggingu sem nýttist vel hestafólki og ekki síður íslenska hestinum sem sannarlega ætti allt það besta skilið í aðbúnaði og umhirðu. Hann beindi orðum sínum einnig til Ármanns Ármannssonar, eiganda Miðfossa og sagði ljóst að fiskurinn hefði gert hann ríkan, en hesturinn hefði gert hann hamingjusaman.

 

Í upphafi vígsluathafnarinnar sýndu hestamenn úr héraði góða takta en í lokin sýndu reiðkennarar skólans, þeir Reynir Aðalsteinsson og Reynir Örn Pálmason skemmtilega munsturreið en þeim til aðstoðar voru þeir Einar Reynisson, sonur Reynis og tengdasonur hans Pálmi Ríkharðsson.

Eftir formlega vísluathöfn reiðhallarinnar var gestum boðið að skoða aðstöðuna og þiggja ríkulegar veitingar af hálfu húsráðenda.

 

Aðstaða eins og hún gerist best

Nýja reiðhöllin og önnur aðstaða í hestamiðstöðinni Mið Fossum verður nýtt í þágu kennslu og rannsókna við Landbúnaðarháskóla Íslands á Hvanneyri og staðfesti landbúnaðarráðherra formlega samning þar að lútandi við vígsluna. Auk þess stendur félögum í hestamannafélaginu Faxa aðstaðan til boða án endurgjalds fyrir starfsemi sína, og flyst nú alfarið keppnishald frá gamla samkomustaðnum á Faxaborg á bökkum Hvítár til Mið Fossa.

 

Húsakostur hestamiðstöðvarinnar er þar með kominn í 2760 fermetra að flatarmáli undir þaki. Þar af er nýja reiðhöllin 1650 ferm. með aðstöðu fyrir áhorfendur. Aðstaða er fyrir 80 hross á fóðrum á Mið Fossum og eru flest þeirra í einstaklingsstíum. Þá er kennslustofa, eldhús og geymsla en úti er fullkominn keppnisvöllur og gerði til þjálfunar. Þá má geta þess að byrjað er að leggja reiðleiðir um Mið Fossa jörðina og stendur til að halda þeirri uppbyggingu áfram.

 

Óhætt er að fullyrða að hvergi á landsbyggðinni sé eins góð aðstaða fyrir hross og tamningar og nú er risin á Mið Fossum. Eigendur og rekstraraðilar hestamiðstöðvarinnar eru hjónin Ármann Ármannsson og Lára Friðbertsdóttir. Ráðsmennska á staðnum er í höndum þeirra Helga Gissurarsonar og Rósu Emilsdóttur sem vissulega hafa í nægu að snúast enda starfsemin vaxandi með hverjum deginum og eftir því sem aðstaðan batnar. 

 

Á myndinni er Guðni Ágústsson að staðfesta samninginn um afnot LbhÍ af aðtöðinni á Mið Fossum. Hjá honum standa þeir Ágúst Sigurðsson, rektor LbhÍ og Ármann Ármannsson eigandi  Mið Fossa.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is