Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. desember. 2006 03:07

Hverfi fyrir 50 ára og eldri í undirbúningi

Bæjarráð Akraness hefur heimilað Soffíu Magnúsdóttur og fyrirtæki hennar „Þitt val ehf.“ að útfæra skipulagningu á allt að 7 hektara landi við Kalmansvík á Akranesi „enda skili hún tillögum um skipulag á svæðinu og framkvæmdaáætlun innan eins árs“ eins og segir í bókun ráðsins. Jafnframt ákvað ráðið að úthluta ekki umræddu landi til annarra á þeim tíma. Fyrr á þessu ári hafnaði þáverandi meirihluti bæjarstjórnar beiðni um uppbyggingu á þessu svæði.

 

Í minnisblaði frá Soffíu sem lagt var fyrir bæjarráð kemur fram að hugmyndin sé að skipuleggja á svæðinu allt að 450 íbúðir af ýmsum stærðum og gerðum sem ætlaðar eru fólki 50 ára og eldri. Eru þar nefnd 30-50 raðhús, parhús og einbýlishús, 220-240 þjónustuíbúðir í fjölbýlishúsum, 80-100 svokallaðar öryggisíbúðir í fjölbýli þar sem gert er ráð fyrir umferð hjólastóla og ýmissa annarra sérþarfa íbúa og 80-100 íbúðir í hjúkrunarheimili, sem gert er ráð fyrir að reisa í samvinnu við hið opinbera.

 

Fram kemur í minnisblaðinu að eignarhald verði afar mismunandi allt frá einkaeign íbúa til leiguíbúða. Þá kemur fram að áætlaður tími til uppbyggingar hverfisins verði 10-12 ár með undirbúningsvinnu en erfitt verði að tímasetja byggingu hjúkrunarheimilis.

 

Gísli S. Einarsson bæjarstjóri segir hugmynd Soffíu djarfa og framsýna og bæjarráð hafi talið sjálfsagt að veita henni frekari gaum og því hafi verið ákveðið að gefa Soffíu svigrúm til þess að útfæra hana nánar. Fyrr á þessu ári hafnaði bæjarráð beiðni Loftorku um skipulagningu hverfis í Kalmansvík þar sem rúmast myndu 200-300 íbúðir.

 

Þá sagði formaður bæjarráðs í samtali við Skessuhorn það stefnu bæjarins að ljúka uppbyggingu Skógarhverfisins áður en nýtt hverfi yrði skipulagt. Aðspurður hvort ákvörðunin nú orki ekki tvímælis í ljósi fyrri samþykkta segir Gísli S. svo ekki vera. Núverandi meirihluti bæjarstjórnar taki öllum góðum hugmyndum um uppbyggingu á Akranesi fagnandi og sé ekki bundinn af ákvörðunum fyrri meirihluta bæjarstjórnar.

 

Soffía Magnúsdóttir hefur undanfarin ár rekið Fasteignamiðlun Vesturlands. Hún segir málið á algjöru frumstigi. Hún segir ákvörðun bæjarráðs afar ánægjulega og gefi svigrúm til þess að útfæra hugmyndirnar nánar. Soffía segist í starfi sínu sem fasteignasali oft hafa orðið vör við þörf á fleiri kostum fyrir fólk þegar fjölskyldurnar taka breytingum. Með skipulagningu hverfis sem ætlað er fólki 50 ára og eldra verði tekið mið af öðrum þáttum en við skipulagningu hefðbundinna íbúðahverfa. Sem dæmi nefnir hún að ekki verði gert ráð fyrir leikskóla og grunnskóla í hverfinu.

 

Aðspurð segist hún ekki vita til þess að hliðstætt hverfi hafi verið skipulagt hér á landi og því sé hér um afar spennandi kost að ræða. Eins og fram kom er rætt um að í hverfinu verði um 450 íbúðir og Soffía óttast ekki að þar sé í of mikið ráðist og bendir á að þarna sé verið að hugsa rúman áratug fram í tímann.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is