Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
14. desember. 2006 03:35

Kaupmenn á Vesturlandi mjög ánægðir með jólaverslunina

„Er nálgast jólin lifnar yfir öllu, það er svo margt sem þarf að gera þá“ þannig segir í  kunnuglegum jólasöngtexta, Jólin koma eftir Ómar Ragnarsson en þar syngur hann um jólin og ýmislegt sem þeim fylgir. Jólasveinarnir eru að týnast til byggða, allt á kafi í snó, í bænum er ys og þys og heimilismóðirinn stendur sveitt í jólahreingerningunum og bakstri. Á meðan gengur mæðulegur heimilsfaðirinn um bæinn á milli búða, svo blankur að hann getur ekki einu sinni keypt kjól á frúnna því eins og segir í niðurlagi einnar vísunnar, „það er svo dýrt að halda þessi jól“.

 

 

Og þrátt fyrir að textinn standi enn fyrir sínu og eigi enn við í dag, þ.á.m.dýrtíðina, eru líklega jólapakkarnir í ár ögn stærri og íburðarmeiri en þá var talið venjulegt. Og láti einhver það hvarfla að sér að einn kjólgopi sé eitthvað til þess að mæðast yfir skal sá hinn sami taka það til ítarlegrar endurskoðunar. Að því komst blaðamaður Skessuhorns er hann tók tal af forráðamönnum verslana á Vesturlandi, spurði þá hvernig jólavertíðin færi af stað, hvort heimamenn væru duglegir að láta sjá sig og hver væri nú vinsælasta jólagjöfin þetta árið?

 

Með ýmis kjöttilboð í gangi

 

Í Samkaup – Úrval í Borgarnesi er nýráðinn verslunarstjóri, Gísli Sigurðsson og segir hann eðlilega ekki geta borið verslunina nú í ár við þá í fyrra, en tilfinningin þeirra í Samkaup sé sú að hún væri svipuð og í fyrra. „Hún er að byrja að fara af stað þessa vikuna og ég vonast eftir að helgin verði lífleg,“ segir Gísli, „verslanirnar í Hyrnutorgi hafa hins vegar ekki verið með samræmdan opnunartíma í desember, en það hefði vissulega verið ákjósanlegt“. Gísli sagði heimafólk aðallega leggja leið sína til þeirra, ekki yrði hann mikið var við utanbæjar- eða sumarbústaðarfólk kæmi á þessum tíma í verslunarleiðangur.

 

Um jólagjafirnar sagðist hann selja mest af hvers konar heimilistækjum, sjónvörpum, DVD spilurum og myndavélum, en einnig væri hellingssala í bókum, sem yrði að teljast gleðilegt. „Ég er bjartsýnn með framhaldið, enda erum við með alls kyns tilboð í gangi, aðallega á kjöti, og býst fastlega við að fólk taki við sér vegna þess,“ sagði hann að lokum.

 

Mikið keypt af jólaseríum á Grundarfirði

 

Í Hrannarbúð á Grundarfirði er verslunareigandi hann Gunnar Kristjánsson en verslunin sérhæfir sig í ritföngum, gjafavörum, tölvum og bókum. Þegar Skessuhorn hafði samband var hann afar hress og ánægður með þá verslun sem þegar var búin að vera og nánast sleitulaust síðan frá jólaföstu. Hann sagði bækur vera seljast þónokkuð og bjóst við að salan á þeim myndi aukast enn frekar í næstu viku. „Það er ekkert eitt fremur en annað sem er að fara hjá okkur, heldur er það frekar jafnt úr öllum flokkum. Leikföng eru vinsæl, gjafapappír og hefðbundnar jólaseríur, en það er mikill metnaður í skreytingum hérna í bænum og fólk upptekið af því, segir Gunnar“. Vertíðina segir Gunnar vera svipaða og í fyrra, hann sé bjartsýnn með framhaldið og eftir því sem hann skynji sé heimafólk duglegt að versla í heimabyggð.

 

Stórir skartgripir og flatskjáir

 

Við heyrðum í Guðna Tryggvasyni, verslunareigandi Models á Akranesi, en sú verslun býður m.a. upp á heimilistæki, gjafavöru, blóm og skartgripi. Guðni sagðist vera í „himnasælu“ yfir gangi mála og virtist jólaverslunin ætla fram úr björtustu vonum. „Það er búið að vera mikill straumur fólks hingað til okkar og hin eiginlega jólaverslun byrjaði strax í nóvember. Það er mun meira um að vera hjá okkur núna en í fyrra og gaman að sjá hversu margir heimamenn sækja í að versla í heimabyggð“. Aðspurður sagði Guðni líklega skýringuna vera tilkomu fleiri verslana og uppbyggingu á svæðinu, þ.á.m. þeirra sem seldu þekkt lágvörumerki en þannig væri meiri möguleiki á að halda fólki innan heimabyggðar og fá það til þess að versla þar.

 

Og hver er svo jólagjöfin í ár?

 

„Hin almenna gjafavara hjá okkur er mjög vinsæl en það sem er að seljast hvað mest hjá okkur um þessar mundir, eru stórir skartgripir og síðan flatskjáir,“ segir Guðni. „Flatskjáirnir kosta allt upp í 500 þúsund og það er talsvert um að fólk sé að staðgreiða þá, þannig að það er áberandi meira um pening í umferð þessi jólin en í fyrra.“ Guðni segist vera afar bjartsýnn með framhaldið og á ekki von á öðru en straumurinn haldi áfram, enda aðal verslunarvikan eftir.

 

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is