15. desember. 2006 11:14
 |
Golfskálinn á Garðavelli |
Bæjarráð Akraness hefur heimilað að hafin verði vinna við breytingu á aðalskipulagi og deiliskipulagi í bæjarfélaginu vegna fyrirhugaðrar byggingar hótels á Garðavelli, golfvelli Golfklúbbins Leynis á Akranesi. Eins og fram kom í fréttum Skessuhorns í haust eru hugmyndir uppi um byggingu sex hæða hótels við völlinn.
Óskað var umsagnar skipulags- og byggingarnefndar bæjarins um hugmyndirnar á sínum tíma og taldi nefndin bygginguna fyllilega koma til greina á þessum stað en benti þó á að það hljóti að fara eftir því hvernig slíkar hugmyndir séu settar fram.
Það voru þrír einstaklingar, Guðjón Theódórsson, Guðmundur Egill Ragnarsson og Ragnar Már Ragnarsson, sem óskuðu heimildar bæjarráðs til að hefja vinnu við breytingar skipulags.