17. desember. 2010 05:11
Jólagjafir í nútímaskilningi á Íslandi eru ekki nema rúmlega hundrað ára gamall siður meðal almennings á Íslandi þótt gjafir á jólum þekktust frá fornu fari hjá kóngafólki og öðrum höfðingjum erlendis og hérlendis eins og þegar má sjá í Egils sögu og fleiri fornritum. Hér á landi voru sumargjafir mun eldri, og er kunnugt um þær fyrir miðja 16. öld.
Að vísu fengu flestir heimilismenn að minnsta kosti eina nýja flík frá húsbændum sínum, og nýja fagurbryddaða sauðskinnsskó sem kölluðust jólaskór. Samt er eins og ekki hafi verið litið á þetta sem jólagjafir, heldur mun fremur sem einskonar launauppbót í lok ársins.
Það er komið að ókrýndum hávaðaseggi jólasveinanna, honum Hurðaskelli en hann gerir það að leik sínum að láta ófriðlega og skella hurðum við hvert tækifæri, hrekkjalómurinn sá.
Sjöundi var Hurðaskellir,
- sá var nokkuð klúr,
ef fólkið vildi í rökkrinu
fá sér vænan dúr.
Hann var ekki sérlega
hnugginn yfir því,
þó harkalega marraði
hjörunum í.