Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
18. desember. 2006 02:30

Meirihluti bæjarstjórnar Akraness klofnar í afgreiðslu bankatilboðs

Meirihluti bæjarstjórnar Akraness klofnaði þegar atkvæði voru greidd um hvaða tilboði skyldi tekið í bankaviðskipti bæjarfélagsins. Atkvæði minnihluta bæjarstjórnar þurfti til að ákveða hvaða tilboði yrði tekið. Tillaga um að vísa málinu til bæjarráðs var borin upp á fundinum en hún var ekki borin undir atkvæði og er færð til bókar.  Bæjarfulltrúi gerir athugasemd við málsmeðferðina en segir málið ekki hafa áhrif á meirihlutasamstarfið í framtíðinni.

 

 

 

 

Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns ákvað Akraneskaupstaður fyrir nokkru að segja upp bankaviðskiptum við Landsbanka Íslands og bjóða viðskiptin út. Tilboð bárust frá Glitni hf., KB banka hf., Landsbanka Íslands hf. og Sparisjóðnum á Akranesi. Starfshópur sem skipaður var Andrési Ólafssyni fjármálastjóra bæjarins, Jóni Pálma Pálssyni bæjarritara og Jóhanni Þórðarsyni endurskoðanda mat tilboðin og komst að þeirri samhljóða niðurstöðu að tilboð Landsbankans væri hagstæðast.

 

Þegar álit starfshópsins var lagt fyrir bæjarráð þann 7. desember lagði Sveinn Kristinsson bæjarráðsmaður minnihlutans til að gengið yrði til samninga við Landsbankann en sú tillaga var felld. Meirihluti bæjarráðs taldi eðlilegt að kynna niðurstöðu starfshópsins fyrir þeim bankastofnunum sem gerðu tilboð áður en formleg ákvörðun yrði tekin um framhaldið.

 

Á fundi bæjarstjórnar í síðustu viku var málið síðan tekið fyrir og lagði Gunnar Sigurðsson forseti bæjarstjórnar fram tillögu um að tilboði Landsbankans yrði tekið. Sæmundur Víglundsson bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins lagði fram tillögu um að málinu yrði vísað til bæjarráðs að nýju til frekari athugunar. Meirihluti bæjarstjórnar var því ekki samstíga í málinu og ljóst að til þess að afgreiða málið þyrfti atkvæði minnihlutans.  Að lokinni umræðu um málið var tillaga Sæmundar hins vegar ekki borin upp heldur tillaga forseta og var hún samþykkt með átta atkvæðum gegn einu atkvæði Sæmundar.

 

Í samtali við Skessuhorn segir Sæmundur að hann hafi áður en málið kom til afgreiðslu bæjarstjórnar haft samband við alla þá banka er buðu í viðskiptin. Forsvarsmenn þriggja banka hefðu gert talsverðar athugasemdir við þær forsendur sem starfshópurinn hefði gefið sér við yfirferð tilboðanna og því orkaði niðurstaða starfshópsins að þeirra mati tvímælis. Engar athugasemdir hefðu hins vegar verið uppi frá Landsbankanum. „Mér þótti því rétt að fara betur yfir málið til þess að fá úr því skorið hvort sjónarmið allra bjóðenda hefðu komið fram, sem að mínu áliti er fullkomnlega eðlilegt þegar verk og eða viðskipti eru boðin út.  Því miður var ekki fallist á mín sjónarmið“ segir Sæmundur. Aðspurður hvort málið hafi einhver eftirköst í samstarfi meirihlutans segir hann svo ekki vera af sinni hálfu.

 

Tillaga Sæmundar kom ekki til afgreiðslu á fundinum og hún er ekki færð til bókar í fundargerð. Sæmundur segir það mistök að tillagan hafi ekki verið borin upp og telur að hún hafi ekki notið stuðnings meirihluta bæjarstjórnar. Hann segist hins vegar ætla að gera athugasemdir við fundargerðina á næsta fundi bæjarstjórnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is