30. desember. 2006 02:23
Norðurál ehf. á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit hefur ákveðið að bjóða íbúum Hvalfjarðarsveitar, Akraneskaupstaðar og nágrönnum þeirra til flugeldasýningar og verður hún haldin við áramótabrennu þá sem Björgunarfélag Akraness, í samstarfi við Stafna á milli ehf., Akraneskaupstað og Hvalfjarðarsveit, heldur í landi Kross á gamlárskvöld. Eins og fram hefur komið í fréttum Skessuhorns hefst brennan kl.20.30.
Rakel Heiðmarsdóttir framkvæmdastjóri starfsmannasviðs Norðuráls ehf. segir afar viðburðaríkt ár á enda hjá fyrirtækinu og starfsmönnum þess. Samhliða gríðarmiklu uppbyggingarstarfi á liðnum árum hafi fyrirtækið af fremsta megni stutt við bakið á ýmsu félagsstarfi í næsta nágrenni fyrirtækisins. „Við höfum einkum horft til félaga og félagasamtaka sem vinna að málefnum barna og unglinga. Þegar við fréttum af þessu þarfa framtaki fyrirtækja og félaga í Hvalfjarðarsveit og á Akranesi vildum við gjarnan leggja hönd á plóg. Við vonum því að fjölskyldur eigi ánægjulega kvöldstund við brennuna og kveðji í sameiningu viðburðaríkt ár“ segir Rakel.
Ásgeir Örn Kristinsson formaður Björgunarfélags Akraness segir stuðning Norðuráls gleðilegan. „Við höfum fengið góðar undirtektir við brennuhaldinu og flugeldasýningin verður auðvitað til þess að kóróna góða skemmtun“. Eins og áður sagði hefst brennan í landi Kross kl. 20.30 á gamlárskvöld og segir Ásgeir að flugeldasýningin hefjist þegar á brennuna líður og væntanlega um kl.21. Ásgeir ítrekar einnig óskir um að brennugestir skilji flugelda sína eftir heima.