Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
11. janúar. 2007 05:29

Vesturlandsvegur er einn versti slysakafli landsins

Á árunum 1972-2006 hafa 56 vegfarendur látist í umferðarslysum á Vesturlandsvegi, frá Grafarholti í Reykjavík og í Borgarnes. Þetta kemur fram í tölum frá Umferðarstofu. Af þessum fjölda dóu 32 í árekstrum, nítján í bílveltum eða útafakstri, fjórir gangandi vegfarendur og einn reiðhjólamaður. Flestir þeirra sem létust í þessum slysum á Vesturlandsvegi voru á aldrinum 25-64 ára. Af þeim sem fórust voru 33 ökumenn bifreiða og 18 farþegar. Karlar í þessum hópi voru 39 að tölu, 13 konur og 4 börn. Flest urðu banaslysin árið 1997 eða fimm talsins. Á veginum um Hvalfjörð, sem fyrir tíma Hvalfjarðarganga var aðalleiðin, létust fjórtán og á leiðinni frá Grafarholti að Mosfellsbæ, sem nú hefur verið tvöfölduð, létust tólf manns.

 

Sömu ár, þ.e. 1972-2006 létust 54 vegfarendur í umferðarslysum á Suðurlandsvegi. Af þeim létust 38 í árekstrum, fjórtán í bílveltum eða útafakstri og tveir vegfarendur létust eftir að ekið var á þá.

 

Á síðastliðnu ári fórust þannig 30 manns í bílslysum hér á landi. Í kjölfar mikillar slysaöldu síðsumars var blásið til fundaherferðar þar sem ráðamenn og ýmsir aðilar sem láta sér umferðaröryggismál varða tóku höndum saman til að reyna að opna augu fólks fyrir alvarleika málsins. Ræddu menn jöfnum höndum ástand vega og hegðun fólks í umferðinni. Hvoru tveggja er verulega ábótavant – um það er ekki hægt að deila.

Umferðarþungi á fjölförnum stofnvegum á SV horni landsins er sífellt að aukast og þangað beinast því augu flestra þegar kemur að næstu stórframkvæmdum í vegamálum Íslendinga. Áðurnefndar tölur um fjölda banaslysa á Vesturlandsvegi sýna betur en margt annað að bæta þarf bæði umferðarmenningu og vegamannvirki á þessari leið.

 

Samstaða með vefinn: www.nullsyn.is

Í kjölfar slysaöldunnar í lok sl. sumars fóru liðsmenn áhugahóps um tvöföldun Reykjanesbrautar að láta meira í sér heyra varðandi umferðaröryggismál – og nú á breiðari grunni en áður. Hópurinn hefur í fjöldamörg ár barist fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar og hefur náð árangri með markvissri herferð. Þó nú sé einungis hálfnað að tvöfalda Reykjanesbrautina er árangurinn á allra vitorði. Engin banaslys hafa orðið á þeim hluta leiðarinnar sem nú hefur tvær aðskildar akreinar til beggja átta. “Okkur ber siðferðileg skylda til þess að miðla því sem hefur áunnist í baráttunni hér á Suðurnesjum. Það leiddi til stofnunar félagsskaparins Samstöðu á liðnu ári, sem er nokkurs konar grasrótarsamtök fyrir bættri umferðarmenningu og samgöngubótum hér á landi. Við lögðum áherslu á samstöðu og afmörkun verkefna innan baráttuhópa um allt land sem þá vinna markvisst að málunum á sínum svæðum. Við vildum horfa lengra fram í tímann og hafa markmiðin skýr. Fyrir hverju vilt þú berjast og hvað gerum við sjálf til þess að ná fram þeirri breytingu? Fyrir þessu stendur Samstaða.” Þetta segir Steinþór Jónsson, hótelstjóri í Keflavík í samtali við Skessuhorn en hann hefur í áraraðir verið einarður talsmaður Reyknesinga í baráttu þeirra fyrir tvöföldun Reykjanesbrautar.

 

Steinþór vill hvetja íbúa á Vesturlandi til að berjast fyrir sínum hagsmunamálum í umferðinni og gera það meðal annars með því að stofna til áhugafélaga í héraði. “Ég hvet Vestlendinga til að hafa samband við mig hafi þeir áhuga á að beita sér á þessum vettvangi – stofnun slíks félagsskapar flýtir úrbótum í umferðarmálum á Vesturlandi. Einnig getur fólk skráð sig inn í væntanlegan félagsskap á heimasíðunni: www.nullsyn.is” Steinþór segir að þessa dagana sé Samstaða að senda frá sér fjölda auglýsinga í samstarfi FÍB, Umferðarstofu og fleiri aðila og birtist ein þeirra í Skessuhorni í dag á bls. 7.”Við höfum þá sýn að berjast fyrir umferðaröryggismálum á jákvæðan hátt og í staðinn fyrir að gagnrýna yfirvöld endalaust viljum við styðja þau og aðra tengda aðila til að vinna að settu markmiði. Takmark okkar er slysalaus sýn árið 2007 í umferðinni. Einhverjum kann að þykja það háleitt markmið en að okkar mati má takmarkið aldrei vera minna. Við megum ekki falla í þá gryfju að sætta okkur við meðaltal slysa á síðustu árum sem góðan árangur. Samstaða vinnur nú að gerð Íslandskorts sem sýnir hvernig við viljum að umferðarmannvirki verði á Íslandi eftir 20-30 ár. Sú framtíðarsýn hefur aldrei verið lögð fram áður á þennan hátt en við teljum að ef ekkert markmið liggur fyrir sé erfitt að ná árangri. Þegar myndin liggur fyrir getum við tekist á, með skynsamlegum hætti, um hver forgangsröðin á að vera,” segir Steinþór Jónsson sem ítrekar að Vestlendingar, líkt og t.d. Sunnlendingar og Reyknesingar, þurfi að setja sér markmið og hvetur þá að lokum til að hefjast handa hér og nú.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is