Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
21. janúar. 2007 08:31

Fjölmenningarsamfélag eins og góð salatskál

Stofnfundur Margmenningar, félags áhugafólks um fjölmenningu í Borgarbyggð, verður í Safnahúsi Borgarfjarðar á morgun, mánudaginn 22. janúar. Það eru þær stöllur Guðrún Vala Elísdóttir, náms- og starfsráðgjafi og Ása Harðardóttir, forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar sem eru driffjaðrirnar í að koma félaginu á koppinn. En hvers vegna þarf að stofna félag um fjölmenningu í Borgarbyggð, eru svo margir íbúar þar af erlendu bergi brotnir? Látum þær stöllur um að svara því:

 

Guðrún Vala telur að í Borgarbyggð búi nú um 300 einstaklingar af erlendum uppruna, börn og fullorðnir og hún hafi ekki gert sér grein fyrir þörfinni fyrr en hún fór að kenna útlendingum íslensku. „Þá var fólk að koma með ýmis mál sem þörfnuðust úrlausnar en vegna tungumálaerfiðleika var erfitt að leysa. Komið var með gíróseðla og spurt hvað þetta væri, hvað til dæmis orlof þýddi eða iðgjald. Fólk vissi ekki um húsnæðisbætur, ekki að hér er lögboðið að keyra með öryggisbelti eða hafa ljós á bílunum og margt fleira. Þá hafði ég samband við Ásu Harðardóttur og saman höfum við verið í sjáflboðavinnu við að hafa opið hús hér í Safnahúsinu á hverjum sunnudegi þar sem við reynum að svara þeim spurningum sem brenna á fólki. Hins vegar er það ekki spurning að þeir sem hingað flytjast og ætla að búa hér verða að læra tungumálið til þess að geta orðið sjálfbjarga í þessu nýja landi og til að einangrast ekki, tungumálið er undirstaða alls.”

 

Líta til Ísafjarðar

Blaðamaður er ekki sérlega fróður um þessi málefni, hefur þó heyrt um félagsskap af þessum toga, meðal annars á Ísafirði. „Við sækjum einmitt fyrirmyndina til Ísafjarðar,” segir Ása Harðardóttir. „Þar er rekið afar gott félag sem heitir Rætur. Með því að stofna formlegt félag með kennitölu og öllu sem til þarf myndast annar farvegur. Þá er hægt að aðstoða fólk meira, sækja um styrki og gera þennan félagsskap sem við hófum óformlega í haust virkan. Það er ekki nóg að veita bara aðstoð, fólk þarf líka að kynnast og hittast þannig að félagslegi þátturinn er ekki síður mikilvægur í þessu máli. Þetta félag er til að byrja með einungis hugsað fyrir íbúa Borgarbyggðar, framtíðin mun leiða í ljós hvort fleiri sveitarfélög vilji koma að þessu starfi og þegar hefur Borgarfjarðardeild Rauða krossins sýnt málinu mikinn áhuga.”

 

Íslenskunámskeiðin ódýrari

Guðrún Valaheldur áfram: „Eins og ég sagði áðan er tungumálið undirstaðan og íslenskunámskeiðin hafa verið fremur dýr, núna fyrir áramót kostuðu þau kr. 45.000. Ríkisstjórnin ákvað að veita 100 milljónum til íslenskunámskeiða fyrir erlenda íbúa og þegar hefur 70 milljónum verið ráðstafað til kennslu, því kostar námskeiðið í dag ellefu þúsund krónur. Stéttarfélögin greiða niður um 75% kostnaður nemenda þannig að þeir sjálfir greiða nú tæplega 3.000 krónur. Verðið er þannig ekki lengur hindrun. Erfiðisvinnufólk mætir síður á þessi námskeið því staðreyndin er sú að eftir langan vinnudag er lítið þrek eftir. Til viðbótar við íslenskunámskeiðin er Símenntunarmiðstöðin einnig að fara af stað með svo kallaðan Landnemaskóla sem er ætlaður þeim sem hafa búið hér í ákveðinn tíma og tala svolitla íslensku.  Þar eru kennslugreinar meðal annars samfélagsfræði og lífsleikni en einnig talsverð íslenskukennsla.  Þetta nám auðveldar útlendingum að aðlaga sig að íslensku samfélagi og atvinnulífi.” 

 

Aðstoða fólk að hjálpa sér sjálft

Á meðan kunnáttan á tungumálinu er ekki fyrir hendi þarf samt að miðla nauðsynlegum upplýsingum til fólks. Augljóst er að hinir nýju íbúar missa af einu og öðru og misskilja annað vegna kunnáttuleysis.  „Það sem þarf að byrja á að gera er að safna saman upplýsingum um þá einstaklinga í hópi nýbúa okkar sem tala þokkalega íslensku eða ensku til að koma upplýsingum á framfæri,“ segir Ása. “Fólkið þarf að kynnast reglum samfélagsins sem það býr í og einnig hvað er um að vera í Borgarbyggð. Gott væri að setja upplýsingar inn á heimasíðu Borgrabyggðar á fleiri tungumálum, svo þær séu aðgengilega fyrir alla íbúa sveitarfélagsins. Ég veit til dæmis um fólk með börn sem missti af þrettándabrennunni af því að það hafði ekki hugmynd um að hún væri haldin.”

 

Fjölmenningarsamfélag eins og salatskál

Íslendingar hafa talið sig fordómalausa þjóð þótt of mörg dæmi sýni að svo sé ekki.

„Ég lít á að fjölmenningarsamfélag sé eins og salatskál með mörgum tegundum grænmetis, þar sem hver tegund nýtur sín án þess að skyggja á aðra,” segir Guðrún Vala. Ef okkur, Íslendingum, tekst að byggja upp þannig samfélag, græða allir. Við þurfum nefnilega líka að undirbúa okkur sjálf til að koma í veg fyrir eða losa okkur við fordóma, þá verður fullkomið samræmi í salatskálinni,” sagði Guðrún Vala að lokum.

 

Myndin er frá alþjóðlegu jólaboði sem haldið var fyrir þá íbúa sem ekki fóru heim. Nýbúi frá Litháen skipulagði ásamt Guðrúnu Völu, sem jafnframt tók myndina.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Héðan og þaðan
Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is