Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
22. janúar. 2007 02:33

Tilraunir lofa góðu með notkun bátaradars á jökli

Síðastliðinn sunnudag fóru félagar í björgunarsveitinni Ok í Borgarfirði í tilraunaleiðangur upp á Langjökul þar sem gerðar voru athuganir með hvort hægt væri að nota venjulegan bátaradar við leitarstörf á jökli. Hugmyndina átti Þór Þorsteinsson frá Skálpastöðum og framkvæmdastjóri Nepal ehf., en hann hefur starfað innan björgunarsveitarinnar sl. tvö ár og farið í nokkra leitarleiðangra að fólki um jökulinn. „Á jöklinum er allra veðra von í þoku eða snjóbyl. Oft sést ekki úr augum og skilyrði geta verið afar slæm. Við leit er einn sérútbúinn bíll frá björgunarsveitinni með svæði sem svarar einum kílómetra að breidd og 10 km langt. Hver bíll kostar u.þ.b. 9 milljónir króna og ef við getum fækkað bílum með því að stækka svæðið þeirra, er til mikils unnið,“ segir Þór, aðspurður um hvernig hugmyndin hafi komið til að nota bátaradar á jökli.

 

Þór heldur áfram: „Kostnaður við bátaradar og uppsetningu á bílana er ekki það mikill og einhvern veginn fannst mér rökrétt að fyrst að hægt er að nota slíka radara á sjó og greint báta í margra mílna fjarlægð, ætti að vera möguleiki á að greina bíla eða vélsleða uppi á jökli með sambærilegum tækjabúnaði,“ segir Þór, aðspurður um hvernig hugmyndin hafi fæðst. „Mágur minn, Vilhjálmur Árnason, sérfræðingur í radarmálum og tengdum tæknimálum, studdi hugmyndina og eftir að hafa kynnt hana fyrir björgunarsveitarmönnum, var slegið til og ákveðið að gera tilraunir með verkefnið.“

 

Lagt var af stað frá aðsetri björgunarsveitarinnar i Reykholti laust eftir hádegi á sunnudag en björgunarsveitarmenn ákváðu í leiðinni að nýta tækifærið og þjálfa mannskap á þau tæki sem sveitin á. Bæði er þar um að ræða tvo nýja vélsleða sem björgunarveitin Ok festi kaup á fyrir skömmu, en einnig er nauðsynlegt að þjálfa menn á snjóbíl sveitarinnar, svo allir haldist í góðri æfingu.

 

Fljótlega eftir að lagt var af stað frá Reykholti, sannaði radarinn ágæti sitt, því á leiðinni komu fram á skjánum vegir, rafmagnsstaurar og jafnvel skjólbelti trjáa í Hálsasveit. Uppi á jöklinum fóru björgunarsveitarmenn fljólega að gera alls kyns tilraunir og til þess að fullreyna tæknina, sáu veðurguðirnir um að svartaþoka legðist yfir svæðið. Æfingarnar gengu vel, bæði bílar og vélsleðar birtust á skjánum, sem hvergi var hægt að sjá með berum augum ef rýnt var út í sortann, en einnig komu fram á radarnum ruðningar og bílaslóðir á yfirborði jökulsins.

Eftir æfinguna töldu björgunarsveitamenn líklegt að frekari tilraunir yrðu gerðar með tækið, áður en til þess kæmi að fjárfest yrði í slíku og það notað til leitar að tækjum og fólki. Á heimleiðinni var létt yfir mannskapnum og auðheyrt að menn voru afar ánægðir með fyrstu niðurstöðurnar úr tilraun með bátaradar við leit og björgun á jökli.  

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is