04. júní. 2007 07:29
Í síðustu viku fengu nemendur 10. bekkja grunnskólanna hér á landi niðurstöður úr samræmdu prófunum sem þreytt voru í byrjun maí. Þessar einkunnir gefa vísbendingar um uppskeru nemendanna úr námi síðustu grunnskólaárin en auk þess stöðu grunnskólanna eftir landshlutum. Einkunnir við burtskráningu úr grunnskólunum eru m.a. grunnur að mati á umsóknum nemendanna inn í framhaldsskólana og einstaka áfanga þeirra sé um áfangakerfi að ræða. Að meðaltali yfir heildina voru einkunnir nemenda á prófunum bestar í Suðvesturkjördæmi, eða 6,7. Reykjavíkurkjördæmin voru í öðru sæti með 6,6 og Norðausturkjördæmi í þriðja sæti með 6,2. Nemendur í Norðvesturkjördæmi voru í næstneðsta sæti með meðaleinkunnina 5,9 og Suðurkjördæmi rak lestina með 5,7 í meðaleinkunn, eða heilum lægri en þeir sem best standa að vígi í Kraganum.
Námsmatsstofnun gefur einnig út meðaltöl einstakra námsgreina eftir landshlutum. Þar eru samanburðarhæfar einkunnir nemenda í íslensku, ensku og stærðfræði, en í dönsku, náttúrufræði og samfélagsfræði er hlutfall nemenda sem þreytir prófin mjög ólíkt eftir skólum og landshlutum og því ekki samanburðarhæft milli landshluta. Nemendur í Norðvesturkjördæmi náðu 6,2 að meðaltali í íslenku og einungis nemendur í Suðurkjördæmi voru lægri. Landsmeðaltalið var 6,4 í íslensku. Sama gilti um árangur í stærðfræði og ensku, þar var meðaltal hér í Norðvesturkjördæmi það næstlægsta eða 5,6 í stærðfræði og 6,6 í ensku. Meðaltal yfir landið í heild var 6,0 í stærðfræði og 7,1 í ensku.