06. júní. 2007 06:23
Síðdegis í dag kom upp eldur í sumarbústað í landi Beigalda í Borgarbyggð, en húsið stendur skammt austan við Gufuá í fyrrum Borgarhreppi. Slökkvilið Borgarness var kallað út en húsið brann til grunna á innan við klukkutíma og var ekki við neitt ráðið. Slökkvistarfi lauk nú á nítjánda tímanum en auk brunans þurftu slökkviliðsmenn að slökkva glæður í logandi lyngi og sinu umhverfis húsið. Eigandi sumarhússins var að vinna utan við það þegar hann varð var við þrusk innandyra og þegar hann opnar útidyrahurðina verður mikil sprenging og húsið verður alelda á svipstundu. "Það hefði ekkert verið hægt að gera því húsið varð alelda á skömmum tíma. Ég þakka mínum sæla fyrir að enginn var inni í húsinu," sagði eldri maður, eigandi hússins í samtali við Skessuhorn.
Húsið var 55 fermertrar að stærð og tæplega 40 ára gamalt, þriðja elsta sumarhúsið sem upphaflega reis á þessum slóðum vestan Gufuár. Eigandinn kvaðst aðspurður ekki viss um hvort húsið væri tryggt, en sagði tilfinningalegt tjón meira en fjárhagslegt. Hann taldi sjálfur líklegt að kviknað hafi í út frá olíuofni sem hann notaði til kyndingar, en vildi þó ekkert fullyrða um það.