08. júní. 2007 08:30
Vorið byrjaði vel hjá ferðaþjónustufyrirtækinu Sæferðum í Stykkishólmi. Mikið hefur verið um sérferðir frá Stykkishólmi m.a. fyrir starfsmannahópa og félagasamtök. “Veisluferðirnar vekja alltaf lukku meðal ferþega, enda hvergi betra að snæða sælkeramat en á lygnum vogi með útsýni yfir eyjarnar óteljandi,” segir Svanborg Siggeirsdóttir framkvæmdastjóri Sæferða í samtali við Skessuuhorn. Mikil vinna hefur farið fram í vetur við að bæta matseðla og veitingaaðstöðu í öllum skipum Sæferða.
Sumaráætlun Sæferða hófst 1 júní sl. Baldur siglir þá tvær ferðir á dag og auknir möguleikar eru á að stoppa í dagsferð í Flatey. Í fyrrasumar opnaði nýtt hótel í eyjunni og eru miklar framkvæmdir þar í sumar og bætast nú níu herbergi við gistirýmið og bar. Þá er einnig skemmtilegur veitingastaður í gamla samkomuhúsinu. Að sögn Svanborgar er Suðureyjasigling mjög vinsæl og hvalaskoðunarferðir verða einnig tvær á dag frá og með þessum tíma og bókanir lofa ágætis ferðasumri.
Vorið hefur verið einkar gjöfult og nú þegar hafa fjórar hvalategundir sést í ferðunum í sumar. Svanborg segir töluverðar breytingar hafa verið í lífríkinu sl. ár og nýjar hvalategundir bætast í hópinn á meðan aðrar sjást sjaldnar.