07. júní. 2007 02:39
Í næstu umferð Landsbankadeildarinnar mun Landsbankinn greiða 30 þúsund krónur til góðs málefnis fyrir hvert mark sem skorað verður, bæði í karla- og kvennaflokki. ÍA hefur valið samtökin Geðhjálp til að njóta þeirra peninga sem greiddir verða út, takist liðinu að skora mark. Takist það ekki mun bankinn engu að síður greiða 30 þúsund krónur, líkt og til annarra málefna sem liðin hafa valið. Leikurinn verður síðan endurtekinn í tíundu umferðinni. Landsbankinn hóf átakið „Skorað fyrir gott málefni“ í fyrra og greiddi þá út 1,1 milljón fyrir 38 mörk. Sú upphæð gekk til Neistans, styrktarfélags hjartveikra barna. Leikmenn fá því enn frekari hvatningu til markaskorunar en venjulega á sunnudaginn. ÍA leikur við KR á Akranesi klukkan 20, en skori KR gengur sama upphæð til Styrktarsjóðs Sólheima fyrir hvert mark og gæti það orðið Skagamönnum huggun lendi þeir í því óláni að fá á sig mark.