08. júní. 2007 02:15
Rannsóknarmiðstöð Háskólans á Bifröst hefur tekið að sér að gera þjónustukönnun fyrir Hvalfjarðarsveit og sjá um úrvinnslu á niðurstöðum. Hringt verður á hvert heimili í sveitarfélaginu og eru úthringingar hafnar. Vonast er til að könnunin gefi sem skýrasta mynd af því hvaða þjónustu íbúar nýta sér og hvar. Meðal þess sem spurt verður út í er ástundun íþrótta, tónlistarnám, félagsstarf fyrir eldri borgara, heimsóknir og notkun bókasafna og/eða annarra safna og ástundun barna og unglinga í félagsmiðstöðvum. Þá verða allir íbúar 18 ára og eldri spurðir um hvaða þjónustu þeir sækja til annarra sveitarfélaga og foreldrar og forráðamenn verða spurðir sömu spurningar fyrir hönd barna sinna.
Sveitarstjórn Hvalfjarðarsveitar ákvað að efna til könnunarinnar eftir að Akraneskaupstaður sagði upp þjónustusamningi sveitarfélaganna í desember síðastliðnum. Forsvarsmenn Hvalfjarðarsveitar lýstu á sínum tíma yfir vonbrigðum sínum með þá málsmeðferð. Hafnar eru viðræður um nýja þjónustusamninga að frumkvæði Akurnesinga.