09. júní. 2007 05:40
Í dag var afhjúpað nýtt byggðamerki Hvalfjarðarsveitar við hátíðlega athöfn að Hlöðum. Líkt og Skessuhorn hefur greint frá stóð sveitarstjórn fyrir samkeppni um byggðarmerki, fljótlega eftir sameiningu hreppanna fjögurra í nýtt sveitarfélag. Tæplega sjötíu tillögur bárust til dómnefndar og var tillaga Arnars Steinþórssonar valin hlutsköpust af dómnefnd. Arnar sagði að hann hefði reynt að nýta einfalt myndmál í sinni tillögu. Þar væri á ferð hvalur sem myndaði kross með sporðinum og vísaði þannig í Hallgrím Pétursson og Saurbæ, auk hvalsins í nafni sveitarfélagsins. Arnar dáðist að hugrekki dómnefndar að velja rautt merki, hann hefði einnig sent merkið inn í bláum lit, enda annað hvert byggðamerki blátt í dag.
Elísabet Haraldsdóttir, menningarfulltrúi Vesturlands og formaður dómnefndar, sagði að við val byggðamerkis þyrfti að hafa margt í huga. Merkið þyrfti að vera sterkt og festast í minni. Það þyrfti að þekkjast úr fjarlægð og þola bæði að vera minnkað á bréfsefni og stimpla og stækkað á fána og skildi. Þá þyrfti það að vera fallegt báðum megin og geta blaktað á fánum. Nýja merkið hefði alla þessa eiginleika til að bera og vel það.
Sr. Kristinn Jens Sigurþórsson, sóknarprestur í Saurbæ, flutti stutt ávarp og lýsti ánægju sinni með merkið. Hann sagðist varla þora að nefna hver fyrstu hughrifin hefðu verið, hann gæti skemmt fyrir merkinu en ákvað að láta það vaða. „Kirkjan ferðast á hraða snigilsins.“ Þórhallur Kristjánsson varð í öðru sæti í samkeppninni og Lilja Ívarsdóttir í því þriðja.
Á myndinni sjást tveir ungir piltar úr Hvalfjarðarsveit halda nýja merkinu hátt á lofti. Arnar Steinþórsson, höfundur merkisins, stendur lengst til vinstri við hlið Hallfreðs Vilhjálmssonar oddvita.