10. júní. 2007 02:50
Borgfirðingahátíð hefur staðið yfir frá því á fimmtudagskvöld. Mörg ágæt atriði hafa verið á hátíðinni og sumir dagskrárliðir verið mjög vel sóttir. Síðar í dag, eða klukkan 16 verða m.a. tónleikar í Grábrókargíg í Norðurárdal þar sem flutt verða valin atriði úr Skugga-Sveini og Fjalla-Eyvindi, en tónleikarnir eru liður í IsNord tónlistarhátíðinni sem fram fer að þessu sinni á sama tíma og Borgfirðingahátíð. Meðal dagskráratriða í gær voru IsNord tónleikar í Borgarneskirkju þar sem meðfylgjandi mynd var tekin. Þar fluttu Guðrún Ingimarsdóttir, Bergþór Pálsson, Jónína Erna Arnardóttir og Trausti Jónsson, tónlist og fróðleik úr leikritum eins og Pilti og stúlku, Dansinum í Hruna, Pétri Gaut og Gullna hliðinu.
Dagskrá Borgfirðingahátíðar lýkur síðan klukkan 17 í dag þegar Mýrarnar - Perla Vesturlands, kvikmynd Óskars Þórs Óskarssonar verður endursýnd.