11. júní. 2007 09:48
 |
Nýtt hús GT tækni á Grundartanga |
Fyrirtækið GT tækni fagnaði fimm ára afmæli sínu á föstudaginn var í nýjum húsakynnum á Grundartanga. Blásið var til veglegrar veislu fyrir starfsmenn og velunnara fyrirtækisins, með léttri tónlist og veitingum. Þá söng Grundartangakórinn, undir stjórn Atla Guðmundssonar, nokkur sérvalin lög.
GT tækni sér um tækni- og viðhaldsþjónustu fyrir Íslenska járnblendifélagið, Klafa, Spöl og sífellt stækkandi hóp viðskiptavina á sviði véla, rafmagns og farartækja. Fyrirtækið hefur verið í stöðugri þróun og tekið upp ýmsar nýjungar í þjónustuframboði sína svo sem á sviði verslunar, innflutnings, tækja– og bílaleigu ásamt sérfræðiþekkingu í bókhalds- og tollamálum.
Hvatinn að stofnun GT tæknis var sú hugmyndafræði innan Elkem, móðurfélags Íslenska járnblendifélagsins, að hvert framleiðslufyrirtæki innan þeirra vébanda ætti að einblína á kjarnastarfsemi sína. Því ætti ýmis þjónusta við þá starfsemi að vera í höndum þeirra aðila sem gerðu hana að sinni kjarnastarfsemi.
Síðan fyrirtækið hóf starfsemi sína í apríl 2002 hefur mikið vatn runnið til sjávar. Að sögn Bolla Áransonar, framkvæmdastjóra fyrirtækisins hefur GT tækni þroskast hratt og vel og er í góðum tengslum við nánasta umhverfi sitt og atvinnulíf. Þá hefur GT tækni stækkað jafnt og þétt og orðið að stórum og öflugum vinnustað með 65 starfsmenn á ólíkum sviðum. Í ávarpi Bolla á afmælishátíðinni kom fram að fjársóður fyrirtækja felist í starfsmönnum þeirra og hefur GT tækni haft því láni að fagna að haldast vel á mönnum þar sem hver og einn leggur sitt á vogarskálarnar til að starfsandinn haldist góður. „Það sem mestu máli skiptir er að við vinnum að því að efla hvort annað félagslega og faglega til þess að standa vel að vígi. Við hjá GT tækni teljum okkur best á okkar sviði í dag og við ætlum að halda því þannig og eflast enn frekar viðskiptavinum okkar til hagsbóta“, segir Bolli og bætir við að með nýrri byggingu skapist einnig svigrúm til að taka á framtíðinni með enn meiri festu og einbeitni.
Fleiri myndir frá síðastliðnum föstudegi verða í Skessuhorni sem kemur út á miðvikudaginn.