11. júní. 2007 02:06
Umferðarmál voru fyrirferðarmesti málaflokkurinn hjá lögreglunni á Akranesi í vikunni sem leið en alls leysti lögreglan úr 110 málum. Athygli vekur að nú er svo komið að fleiri ökumenn eru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum ólöglegra vímuefna en þeir sem grunaðir eru um ölvun við akstur. Tveir ökumenn voru stöðvaðir grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þeir voru færðir til rannsóknar og reyndist grunurinn á rökum reistur. Annar ökumaðurinn hafði auk þess í fórum sínum 20 gr. af amfetamíni. Þá var einn ökumaður stöðvaður grunaður um ölvun við akstur. 27 ökumenn voru kærðir vegna hraðaksturs og 15 vegna annarra umferðarlagabrota. Þá urðu fjögur umferðaróhöpp sem lögreglu barst tilkynning um en öll án slysa á fólki.