15. júní. 2007 05:25
Betur fór en á horfðist þegar rúta með um 40 franska ferðamenn vó salt er hún stóð fram af vegkanti á Snæfellsnesi rétt sunnan við Litla Lón á fjórða tímanum í dag. Að sögn lögreglunnar í Ólafsvík var bílstjóri rútunnar að snúa við þegar rútan fór örlítið út af veginum með fyrrgreindum afleiðingum. Bílstjóri rútunnar hafði sjálfur samband við neyðarlínuna af ótta við að rútan myndi velta. Verktakafyrirtækið Stafnafell sem unnu að vegframkvæmdur á svæðinu kom fólkinu til bjargar með því að draga rútuna með vörubifreið sinni aftur upp á veg. Lögregla, sjúkralið og björgunarsveitir á Snæfellsnesi voru kallaðar út sem og þyrlur Landhelgisgæslunnar en þær voru afturkallaðar skömmu seinna. Þá var Samhæfingarstöðin í Skógarhlíð einnig ræst. Farþegar rútunnar nýttu sér ekki áfallahjálp sem boðin var og hélt því rútan áfram leið sinni.
Að sögn vitna á svæðinu var franskur fararstjóri hópsins afar þakklátur fyrir skjót og góð viðbrögð.