19. júní. 2007 03:00
Á síðasta fundi bæjarstjórnar Snæfellsbæjar lagði J-listinn fram tillögu um að Sigurrós F. Hansdóttir verði aftur boðið það starf sem hún gengdi er henni var ólöglega sagt upp, samkvæmt dómsorði Héraðsdóms Vesturlands. Tillagan var felld. Enn fremur segir í ályktun J-listans að bæjarstjórn Snæfellsbæjar hefði heitið því að greiða götur fyrrum starfsmanna af fullri einurð sem J-listamenn lýsi fullum stuðningi við og mælist til að bæjarstjóra verði falið að ganga sem fyrst frá endurráðningu. Eins og áður segir var þessi tillaga felld. Ekki náðist í forsvarsmenn listans út af þessari bókun. Kristinn Jónasson, bæjarstjóri sagði í samtali við Skessuhorn að tillagan hefði verið felld og starfsmaðurinn yrði ekki endurráðinn. „Hinsvegar ætlum við að una dómnum. Næsta skref verður svo að lögfræðingarnir fari að tala saman til að finna út með þær bætur sem þarf að greiða,“ sagði Kristinn.