21. júní. 2007 09:25
Nemendur af Vesturlandi sem stundað hafa fjarnám við Háskólann á Akureyri luku prófum í hjúkrunarfræðum fyrir skömmu. Nemendurnir hafa nýtt sér aðstöðu á bókasafninu á Akranesi til námsins. Það er Símenntunarmiðstöð Vesturlands sem hafði milli göngu um að koma náminu á laggirnar og hefur einnig haft umsjón með prófahaldi þessi fjögur ár. Hinir nýútskrifuðu hjúkrundarfræðingar fögnuðu þessum tímamótum með hátíðlegri athöfn í Fjölbrautaskóla Vesturlans, þótt formleg brautskráning hafi farið fram við Háskólann á Akureyri nokkru fyrr.
Inga Dóra Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri Símenntunarstöðvarinnar sagði meðal annars í sínu ávarpi að allir ættu að eiga jafnan rétt til menntunar hvar sem þeir búa og því væri það mikil framför að geta stundað svona nám í heimabyggð. Hún vonaði einnig að árangur þeirra sem þarna voru að ljúka námi myndi verða hvatning til annarra til að hefja nám því þekking væri mikilvægasta auðlind hvers samfélags í dag.