21. júní. 2007 12:45
Þann 1. júní sl. urðu eigendaskipti á Hótel Barbró á Akranesi þegar Ingólfur Árnason, stjórnarformaður Skagans hf., keypti húsið af Byggðastofnun. Húsið hefur staðið autt síðan í byrjun árs 2006, að undanskildum tíma í vor þegar þar var rekin kosningaskrifstofa, en hótelið hefur verið til sölu í töluvert langan tíma. Ingólfur nýtir gistirýmin á efri hæð fyrir erlenda starfsmenn fyrirtækisins en hyggst leigja neðri hæð hússins út til veitingarekstrar. “Við erum bara að skoða málin í rólegheitum en fyrst þarf að “flikka” verulega upp á húsið og laga það sem laga þarf,” sagði Ingólfur í samtali við Skessuhorn. Hann vildi ekki nefna nein nöfn í sambandi við hugsanlega rekstraraðila.
“Þetta er ágætis fjárfesting en tilgangurinn með kaupunum var að hýsa þessa starfsmenn og svo kemur hitt bara í ljós,” bætti hann við. Áætlað er að jarðhæð hússins verði tilbúin undir rekstur seinna á þessu ári. Ingólfur vildi ekki gefa upp kaupverð hússins en brunabótamat þess er rúmlega 100 milljónir kr.