22. júní. 2007 08:52
 |
Torfi og Gunnólfur undirrita samninginn |
Undirritaður var síðastliðinn mánudag sérstakur samningur milli Dalabyggðar og Vaxtarsamnings Vesturlands um ráðningu starfsmanns fyrir Dalabyggð. Að sögn Torfa Jóhannessonar, verkefnisstjóra Vaxtarsamningsins var verið að undirrita samstarfssamning um ráðningu ferða,- markaðs- og menningarfulltrúa fyrir Dalabyggð og gildir samningurinn í þjú ár. „Þetta samstarf felst í því að Vaxtasamningurinn tekur þátt í launakostnaði starfsmannsins. Einnig eru nokkur atriði í samningnum sem nýtast mun Dalamönnum á komandi árum. Þar er meðal annars talað um að tryggja til frambúðar ungmenna- og tómstundabúðir að Laugum, upplýsingatækni á Vesturlandi, auka arðsemi hlunninda og fleira.
Í samningnum felst einnig viðurkenning á því að Dalirnir hafa ákveðna sérstöðu innan Vesturlands því ætla má að byggðarlagið hafi síður notið góðs af almennum aðgerðum stjórnvalda en önnur svæði á Vesturlandi,“ sagði Torfi.