25. júní. 2007 07:51
Fyrir skömmu fannst hreiður snjógæsar við Breiðafjörð, en snjógæs er amerísk fuglategund. Hún hefur sést hér árlega en ekki er vitað til þess að hún hafi orpið fyrr á landinu. Fyrir skemmstu fannst snjógæsapar með hreiður fannst við Breiðafjörð. Snjógæsin verpir í Alaska, á heimskautasvæðum Kanada og á NV- Grænlandi. Snjógæsin er meðalstór gæsategund og er yfirleitt alhvít en einnig eru til dekkri fuglar af þessari tegund.
Í fréttum Ríkisútvarpsins kemur fram að þær snjógæsir sem hingað hafa flækst hafi líklega fylgt blesgæsinni. Hún fer hér um vor og haust á milli vetrarstöðva á Írlandi og Skotlandi og varpstöðva á V-Grænlandi. Parið við Breiðafjörð gæti hins vegar verið leysingjar frá Bretlandseyjum en þar eru margir andagarðar. Þaðan hafa til að mynda svartir svanir sem stundum sjást á Austfjörðum komið.