25. júní. 2007 12:55
Um liðna helgi stóðu Húnvetningar fyrir héraðshátíð undir heitinu Bjartar nætur. Hátíðinni lauk með hinu árlega Fjöruhlaðborði húsfreyjanna á Vatnsnesi sem haldið er í snotru félagsheimili sem nefnist Hamarsbúð. Þar standa konurnar í ströngu í marga daga við að útbúa hlaðborð með tugum þjóðlegra rétta sem margir hverjir eru við það að falla í gleymskunnar dá. Afurðir af sel og fuglum, sauðfé og úr sjávarfangi ýmis konar gladdi bragðlauka þeirra sem gefnir eru fyrir mat eins og hann var verkaður á öldum áður.
Samkoman var haldin í fallegu umhverfi Hamarsbúðar á vestanverðu Vatnsnesi þar sem sjórinn, fjaran og fjallið var umgjörðin. Þrátt fyrir að gustaði fremur köldu af hafi skemmtu á fjórða hundrað gesta sér ágætlega. Auk hlaðborðsins var á dagskrá bögglauppboð og söngur og að endingu var dansað í stóru samkomutjaldi.
Bjartar nætur njóta sífellt meiri vinsælda og kemur fólk langt að til að njóta veitinganna sem tvímælalaust má flokka sem eina merkilegustu viðleitni landsmanna til að viðhalda upplýsingum um forna matargerð. Því hvar annarsstaðar er gegn vægu verði hægt að bragða á selkjöti, höfrungs- og hrefnukjöti, grásleppuhrognabollum, reyktum hrútspungum, skötustöppu, súrum hænueggjum, blóðpönnukökum, súrsuðum selshreyfum og öðru góðgæti? Þeim sem ekki hugnaðist þessi matur bauðst að bragða á ýmsu sem fólk þekkir betur, svo sem hangikjöti, reyktum fiski ýmis konar og brauðmeti eins og það best þekkist til sveita.
Sjá fleiri myndir í Skessuhorni sem kemur út á miðvikudag.