27. júní. 2007 09:43
Skagamenn unnu verðskuldaðan sigur á Víkingi á Víkingsvelli í gærkvöldi, 3:0. Leikurinn var upphafsleikur áttundu umferðar í Landsbankadeildinni í knattspyrnu. Fyrir leikinn voru liðin jöfn með átta stig. En með sigri er ÍA komið í fjórða sæti deildarinnar með 11 stig. Það var Króatinn Svadumovic í liði ÍA sem átti stærstan hlut í sigri Skagamanna en hann skoraði tvennu, þriðja markið skorar síðan hinn ungi og efnilegi Jón Vilhelm Ákason.
Víkingur byrjaði leikinn betur og voru mun sterkari aðilinn fyrsta korterið. Á fimmtu mínútu átti Grétar Sigfinnur Sigurðarson Víkingi ágætt marktækifæri þegar hann skallar knöttinn að marki ÍA. Þar var Bjarni Guðjónsson til varnar og komst fyrir sendinguna og forðar því að Skagamenn fengju á sig mark. Á fimmtándu mínútu verður markvörður Víkingsmanna, Bjarni Þórður Halldórsson að fara af leikvelli með skurð á höfði og fer þá heldur að síga á ógæfuhliðina hjá heimamönnum.
Á 26. mínútu dregur til tíðinda þegar Króatinn Svadumovic skoraði fyrir Skagamenn með skoti af stuttu færi eftir aukaspyrnu Bjarna Guðjónssonar. Á hinni margfrægu markamínútu, þ.e. 45. mínútu, bættu Skagamenn við öðru marki og aftur var það Svadumovic sem skorar eftir að hafa fengið sendingu frá Páli Gísla Jónssyni, markverði ÍA, sem skaut langt frá marki án þess að varnarmenn Víkings fengju við neitt ráðið. Það var síðan Jón Vilhelm Ákason sem innsiglaði sigur Akurnesinga þegar hann skallaði boltann í markið eftir sendingu frá Andra Júlíussyni, sem var nýlega kominn inn sem varamaður fyrir Þórð Guðjónsson.