28. júní. 2007 12:17
Umferðarmálin voru fyrirferðarmest í verkefnum lögreglunnar á Akranesi í liðinni viku. Alls voru kærð 47 umferðarlagabrot, sem varða misháum sektum. Ungur ökumaður var staðinn að því að aka á 97 km/klst um Kirkjubraut og verður honum gert að greiða 50.000 kr. í sekt auk þess sem 4 punktar færast í ökuferilsskrá hans. Tilkynnt var um tvö umferðaróhöpp, en ekki urðu meiðsl á fólki og tjón lítið. Að kvöldi 19. júní hugðust lögreglumenn hafa tal af ökumanni sem þeir vissu að var að aka þrátt fyrir ökuréttindaleysi. Hann reyndi að komast undan og var eltur inn í heimahús, þar sem hann var handtekinn. Auk þess að hafa verið ölvaður er maðurinn einnig grunaður um akstur undir áhrifum af hinum ýmsu fíkniefnum. Loks var ölvaður ökumaður stöðvaður við aksturinn um miðjan dag á miðvikudag.