28. júní. 2007 02:26
Nú er undirbúningur Írskra daga á Akranesi í fullum gangi en hátíðin fer fram dagana 6. – 8. júlí nk. Ólöf Vigdís Guðnadóttir, verkefnisstjóri Írskra daga á von á að dagskráin verði fullmótuð á allra næstu dögum en þar verður að finna nýja og spennandi dagskráliði í bland við þá gömlu og góðu. “Írskir dagar eru fyrst og fremst fjölskylduhátíð og verður ýmislegt gert til að leggja áherslu á það,” sagði Ólöf í samtali við Skessuhorn. “Við verðum með fullt af nýjungum. Víkingaflokkarnir Hringhorni og Rimmugýgur ætla að halda uppi ekta víkingastemningu á Safnasvæðinu og svo býðst gestum og gangandi að fá reiðhjól ásamt hjálmum til afnota gegn vægu skilagjaldi. Sunnudagurinn verður svo sérstakur leikjadagur þar sem fjölskyldan getur slappað af í Garðalundi, farið í fjölskylduleiki, grillað, farið á hestbak og séð Dýrin í Hálsaskógi sem verða væntanleg í heimsókn,“ sagði Ólöf.
Þá verður í tilefni Írskra daga opnuð sérstök útiljósmyndasýning Friðþjófs Helgasonar, bæjarlistamanns Akraness við Upplýsingamiðstöðina og í Skrúðgarði.
Í fyrra mætti hópur ungmenna sem hafði nokkur áhrif á umfjöllun fjölmiðla um þessa annars ágætu bæjarhátíð. Aðspurð um áherslubreytingar til að sporna við ölvun unglinga á svæðinu sagði Ólöf Vigdís: “Við lærðum margt í fyrra og í ár teljum við okkur hafa betri úrræði. Viðbúnaður verður mikill og þessu verður stýrt á öruggan hátt með mikilli gæslu í Kalmansvík og víðar,” sagði Ólöf en benti jafnframt á ekki hefur verið tekið ákvörðun um hvort frítt yrði í strætó þessa helgi. “Eitt er víst að dagskráin verður hin glæsilegasta og ættu allir fjölskyldumeðlimir að finna sér eitthvað við hæfi,” sagði hún að lokum. Allar nánari upplýsingar og dagskrá Írskra daga er að finna á www.irskirdagar.is