30. júní. 2007 10:10
Á Skálpastöðum í Lundarreykjadal lauk fyrsta slætti síðasta þriðjudag og fleiri bændur sem Skessuhorn hafði samband við eru einnig að koma síðustu stráunum heim um þessar mundir. Bjarni Guðmundsson bóndi á Skálpastöðum sagði í samtali við Skessuhorn að hann hefði slegið um 60 hektara, slægjan hefði verið góð og því væri heymagn um 10-15% meira en af sömu stykkjum í fyrra. „Ég slæ alveg örugglega tvisvar þetta árið og jafnvel þrisvar sumsstaðar,“ sagði Bjarni og bætti við að núna hefði slátturinn tekið rétt rúma viku.
„Ég hef reyndar verið fljótari. Það var árið 2004 og tíðin með öðrum hætti. Þá sló ég á mánudagskvöldi og kláraði á fimmtudagskvöldi, enda hékk rigning yfir. Í þetta sinn hefur verið samfelldur þurrkur, taðan því vel þurr og góð. Við erum með verktaka, Magnús Eggertsson í Ásgarði, í okkar heyhirðingu, mér finnst það koma betur út. Hann er með góðan vélakost og því eru afköstin afar mikil. Ég er viss um að heyhirðing gengi ekki svona hratt og vel fyrir sig ef við værum alfarið í þessu sjálf,“ sagði Bjarni á Skálpastöðum.