01. september. 2007 10:27
 |
Hópurinn í virkjuninni á Hellisheiði |
Síðastliðinn fimmtudag bauð Verkalýðsfélag Akraness eldri félagsmönnum sínum ásamt mökum í dagsferð. Að þessu sinni var farið á Suðurland. Leiðsögumaður var Björn Finsen. Þessi ferð er árlegur viðburður í starfsemi VLFA. 96 eldri félagar fór með ásamt þremur fulltrúum félagsins og leiðsögumanni, þannig að hópurinn taldi slétt hundrað. Lagt var af stað frá Akranesi í rigningarúða og ekið sem leið lá um Hvalfjarðargöng og út á Kjalarnes. Þaðan var ekið inn Mosfellsdal yfir á Þingvelli þar sem stoppað var stundarkorn. Þar tíndu sumir ber en aðrir nutu útsýnisins. Frá Þingvöllum var ekið um Lyngdalsheiði að Laugarvatni þar sem snæddur var hádegisverður á veitingahúsinu Lindinni. Boðið var upp á nýjan silung og fleira góðgæti úr nágrenni staðarins.
Frá Laugarvatni var ekið sem leið lá að Gullfossi og þaðan í sólina við Geysi. Áð var á báðum stöðum. Frá Geysi var ekið að Skálholti þar sem Sr. Sigurður Sigurðarson vígslubiskup tók á móti hópnum inni í kirkjunni og ræddi aðeins um sögu staðarins. Næsti viðkomustaður var Hótel Selfoss þar sem boðið var upp á hressingu. Þaðan var farið yfir Hellisheiði og hin nýlega Hellisheiðarvirkjun skoðuð með leiðsögn áður en haldið var heim á leið í sól og blíðu.
Að sögn Vilhjálms Birgissonar, formanns VLFA þótti ferðin hafa tekist vel og kann hann öllum þeim sem þátt tóku og skipulögðu, bestu þakkir fyrir.
Sjá má fleiri myndir úr ferðinni á vef félagsins; www.vlfa.is