03. september. 2007 02:35
Um síðustu helgi var gengið frá sölu á ferðaþjónustufyrirtækinu Snjófelli á Arnarstapa. Þeir sem keyptu eru sömu hlutahafar og eiga fyrirtækið Undir jökli, sem rekur meðal annars Hótel Ólafsvík. Að sögn Sverris Hermannssonar hluthafa í Undir jökli verður byrjað strax á endurbótum. Meðal annar verður tjaldstæðið lagað, gistiaðstaðan mun verða lagfærð auk þess sem veitingahúsið Arnarbær verður endurbætt. Sverrir sagði í samtali við Skessuhorn að hann væri bjartsýnn á framtíðina með aukinni komu ferðamanna á Snæfellsnes. “Við verður með ferðir á jökulinn með svipuðu sniði og verið hefur, en sjálfsagt verður áherslum eitthvað breytt. Það á allt eftir að koma í ljós,” bætir Sverrir við.
Tryggvi Konráðsson og fjölskylda hans hefur rekið ferðajónustufyrirtækið Snjófell sl. 17 ár en fyrirtækið hefur verið rekið sem hlutafélag frá árinu 1995. Hjá Snjófelli hefur verið hægt að nálgast alhliða ferðaþjónustu í gegnum árin m.a gistingu, sjóstangveiði og ferðir á Snæfellsjökul.