Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
03. september. 2007 05:08

Samþykkt í stjórn OR að framkvæma formbreytingu á fyrirtækinu

Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur samþykkti á fundi sínum í morgun að beina því til eigenda fyrirtækisins, Reykjavíkurborgar, Akraneskaupstaðar og Borgarbyggðar, að rekstrarformi fyrirtækisins verði breytt úr sameignarfyrirtæki í hlutafélag og að hlutafélagið taki til starfa um næstu áramót. Reykjavíkurfulltrúar Samfylkingar og VG í stjórn OR greiddu atkvæði gegn tillögunni.  Jafnframt var samþykkt að beina því til eigenda að óskað verði eftir því við iðnaðarráðherra að flutt verði frumvarp til laga um breytingu á lögum um Orkuveitu Reykjavíkur til samræmis við efni tillöguna. Fulltrúar vestlensku sveitarfélaganna í stjórn OR samþykktu báðir tillöguna fyrir sitt leyti. Þeir, eins og meirihluti stjórnar Reykjavíkurborgar, eru einhuga um að ekki standi til að selja hlut sveitarfélaganna í OR né að fyrirtækið verði einkavætt þrátt fyrir þessa formbreytingu sem sögð er nauðsynleg m.a. til að fyrirtækið geti tekið þátt í samkeppnisrekstri.

 

Ýmist hagræði falið í formbreytingu

Í bókun meirihluta stjórnar OR segir m.a., að það sé tiltölulega lítil breyting að færa rekstrarformið úr sameignarfélagi í hlutafélag en bæði rekstrarformin lúti lögmálum einkarekstrarins. Meginmunur á sameignar- og hlutafélagsforminu varði ábyrgðir eigenda. Í sameignarfyrirtækjum ábyrgist eigendur allar skuldbindingar félagsins en í hlutafélögum ábyrgjast eigendur einungis skuldbindingar félagsins með framlögum sínum, hlutafé, og öðrum eignum félagsins. Ábyrgðir eigenda sameignarfyrirtækja skekki samkeppnistöðu þeirra gagnvart hlutafélögum sem ekki njóta sérstakra ábyrgða eigenda sinna. Þá hafi verið sýnt fram á að ábyrgðirnar stríði gegn samningum um Evrópska efnahagssvæðið. Ýmsir sveitarstjórnarmenn þ.á.m. borgarfulltrúar hafi opinberlega gagnrýnt ábyrgðir sveitarfélaga á skuldbindingum Orkuveitu Reykjavíkur og greitt atkvæði gegn þeim. Þá er minnst á að tekjuskattshlutfallið lækki við breytinguna úr 26% í 18% og ætti það eitt og sér að réttlæta breytingu á rekstrarformi fyrirtækisins.

 

Hjörleifur kynnir málið

Fulltrúar sveitarfélaganna á Vesturlandi sem sitja í stjórn Orkuveitu Reykjavíkur, þeir Gunnar Sigurðsson á Akranesi og Björn Bjarki Þorsteinsson, áheyrnarfullrúi í stjórn frá Borgarbyggð, rituðu undir tillöguna. Í samtali við Skessuhorn ítrekuðu þeir báðir að ekki stæði til að einkavæða fyrirtækið þrátt fyrir að þessi formbreyting væri lögð til af meirihluta stjórnar. Bæði Gunnar og Björn Bjarki sögðust hafa áréttað það við stjórnendur OR að fram færi ítarleg kynning fyrir sveitarstjórnarmenn í sveitarstjórnum sem hlut ættu að máli um hvað felist í formbreytingunni. “Hjörleifur Kvaran, aðstoðarforstjóri OR mun kynna hvað í þessu felst fyrir sveitarstjórnum á Akranesi og í Borgarnesi innan tíðar. Hjörleifur er nú að taka við starfi forstjóra tímabundið í sjö mánuði þar sem Guðmundur Þóroddsson forstjóri hefur verið ráðinn í sérverkefni á vegum fyrirtækisins sem snýr að útrás þess,” sagði Gunnar Sigurðsson í samtali við Skessuhorn.

 

Ekki einn með sölu

“Í samkeppnisrekstri þarf fyrirtækið að hafa það svigrúm sem hlutafélagaformið felur í sér. Þessi breyting felur ekki í sér að menn ætli að einkavæða Orkuveituna, það er ekki minn vilji og ég held engra sveitarstjórnarmanna í Borgarbyggð. Um formbreytinguna eru hinsvegar skiptar skoðanir og það er bara eðlilegt,” sagði Björn Bjarki Þorsteinsson, forseti sveitarstjórnar Borgarbyggðar og áheyrnarfulltrúi í stjórn OR í samtali við Skessuhorn. Í sama streng tók Gunnar Sigurðsson: “Það er ekki ein rödd hér á Akranesi með því að einkavæða OR né að selja hlut okkar í fyrirtækinu. Þar er ég sjálfur og aðrir sjálfstæðismenn sem ég hef rætt við ekki undanskildir,” sagði Gunnar. Hann bætti því við að þegar Akranesveita á sínum tíma sameinaðist OR stóð til að veitufyrirtækið yrði rekið sem hlutafélag en á móti því hafi fulltrúar Vinstri grænna sett sig þá og þeir eru enn sama sinnis. Við því er ekkert að gera,” sagði Gunnar.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is