04. september. 2007 01:37
Kaupfélag Skagfirðinga byrjar haustvinnu sína í sláturhúsinu í Búðardal á morgun, 5. september. Starfsemin verður með svipuðu sniði og á síðasta ári og vinnslan verður eitthvað fram á haustið, líklega eitthvað fram í nóvember. Að sögn Ágústar Andréssonar, forstöðumanns kjötafurðastöðvar KS verður starfsemin í húsinu á svipuðum nótum og síðasta haust. „Í Búðardal verður móttaka og varsla á kjöti ásamt sögun á því, einnig verður svíðing og verkun á hausum.“ Aðspurður sagði Ágúst að í þessi verk þyrfti um 12 til 13 starfsmenn en illa hefði gengið að manna störfin með íslenskum starfskröftum. „Við erum búnir að auglýsa víða en það hefur ekki borið mikinn árangur. Eftir þessu að dæma er atvinnuástand gott í Dölum. Mér sýnist að töluverður hluti starfsmannanna verði af erlendu bergi brotinn,“ sagði Ágúst.