Senda Skessuhorni fréttaskot
Spurning vikunnar
Hver er þinn uppáhalds mánuður
Áskrift að Skessuhorni
Færð á vegum
Vestfirðir Suð-Austurland Vesturland Austurland Norðurland Suð-Vesturland Landið allt Suðurland
04. september. 2007 04:39

Ákvörðun heilbrigðisnefndar dæmd ógild um starfsleyfi Laugafisks

Umhverfisráðuneytið kvað sl. föstudag upp úrskurð vegna starfsleyfis Laugafisks ehf. á Akranesi. Eins og Skessuhorn hefur greint frá barst ráðuneytinu þann 3. apríl sl. bréf frá 17 íbúum á Akranesi þar sem þeir krefjast þess að ráðuneytið beiti sér fyrir því að starfsemi Laugafisks verði stöðvuð og að starfshættir Heilbrigðisnefndar Vesturlands verði teknir til athugunar vegna útgáfu á starfsleyfi til fyrirtækisins 1. nóvember 2006. “Þykir verða að virða umrætt erindi sem stjórnsýslukæru,” segir m.a. í úrskurði ráðuneytisins 31. ágúst sl. Í úrskurðarorðum umhverfisráðuneytisins segir orðrétt: “Ákvörðun Heilbrigðisnefndar Vesturlands um endurnýjun starfsleyfis Laugafisks ehf. frá 1. nóvember er hér með felld úr gildi. Krafa kærenda um stöðvun atvinnurekstrar Laugafisks ehf. er ekki tekin til greina.”

Athugasemdir þeirra 17 kærenda sem skrifuðu ráðuneytinu um að endurnýjun leyfisins hafi ekki verið í samræmi við gildandi lög og reglur, lúta að lyktarmengun frá starfsemi fyrirtækisins. Var starfsleyfi Laugafisks upphaflega veitt til fjögurra ára en nokkrum mánuðum áður en gildistími þess starfsleyfis rann út, tók heilbrigðisnefnd ákvörðun um endurnýjun þess. Töldu kærendur að þeir stjórnsýsluhættir heilbrigðisnefndarinnar að auglýsa ekki til athugasemda þá leyfisendurnýjun, standist ekki gildandi lög og reglugerðir og kröfðust þess að starfsemi fyrirtækisins yrði stöðvuð og vinnubrögð heildbrigðisnefndar tekin til athugunar.

 

Bráðabirgðaleyfi veitt

Í niðurstöðu ráðuneytisins er vísað í 1. grein laga nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir þar sem fram kemur að markmið þeirra laga sé að búa landsmönnum heilnæm lifsskilyrði og vernda þau gildi er felast í heilnæmu og ómenguðu umhverfi. Telur ráðuneytið að gögn málsins upplýsi að starfsemi Laugafisks sé líkleg til að hafa í för með sér áhrif á loftgæði og hafa lyktarmengandi áhrif, sbr. skilgreiningu á hugtakinu mengun. Telur því ráðuneytið að endurnýjun starfsleyfisins varði hagsmuni íbúa í nágrenni verkunarinnar. Telur ráðuneytið að heilbrigðisnefnd Vesturlands hafi ekki gefið íbúum kost á að koma að athugasemdum fyrir endurnýjun starfsleyfisins og tekur því kröfu um ógildingu starfsleyfisins gilda. Ráðuneytið snuprar því heilbrigðisnefnd og gerir nefndinni að taka nýja ákvörðun í málinu. Slíkt mun vafalaust fela það í sér að heilbrigðisnefnd þarf að auglýsa eftir athugasemdum við nýtt starfsleyfi Laugafisks á Akranesi, telji nefndarmenn að nægjanlegar forsendur séu til staðar fyrir að slík lyktarmengandi starfsemi verði áfram til staðar á Neðri Skaga á Akranesi, nærri íbúðabyggð.

Ráðuneytið telur loks skorta á lagaskilyrði til að unnt sé að taka kröfu kærenda um stöðvun atvinnurekstrar Laugafisks til greina. Fyrirtækið hefur sótt um undanþágu frá starfsleyfi og hefur umhverfisráðuneytið fallist á að veita þá undanþágu eða þar til ný ákvörðun heilbrigðisnefndar Vesturlands um starfsleyfi Laugafisks ehf. liggur fyrir.

 

Hljóta að þurfa að færa starfsemina

Guðmundur Sigurbjörnsson, einn hinna 17 sem sendu ráðuneytinu kæruna, sagði í samtali við Skessuhorn að hópurinn muni gera allt sem í hans valdi standi til að fyrirtækið fái að óbreyttu ekki endurnýjun starfsleyfis. “Við erum fyrir löngu síðan búin að fá upp í kok af lyktarmengun frá Laugafiski og munum nú beina spjótum okkar að heilbrigðisnefnd. Ég trúi því ekki að óreyndu að kjörnir fulltrúar og embættismenn fólksins, sem sitja í heilbrigðisnefnd Vesturlands ætli áfram að taka hagsmuni þessa fyrirtækis fram yfir hagsmuni hundruða íbúa á Neðri Skaga sem geta ekki opnað glugga á híbýlum sínum vegna ólyktar. Heilbrigðisnefndin fékk núna rækilega ofanígjöf frá ráðuneytinu og niðurstaðan hlýtur að verða sú í málinu að starfsleyfi Laugafisks verði ekki endurnýjað og því gert að flytja út fyrir íbúðabyggð,” sagði Guðmundur Sigurbjörnsson í samtali við Skessuhorn.

Sjónvarp Skessuhorns
Leit á vefnum
Fréttasafn
Næsta ár Fyrra ár
Mest lesið í vikunni
Aðsendar greinar
Hulda Hrönn Sigurðardóttir

Þjónusta við einstaklinga með ...

Ásmundur Einar Daðason

Ljósleiðari á hvert heimili

Bjarni Jónsson

Landsnet verði í samfélagseigu

Ólafur Óskarsson

Betri byggð, öruggari umferð

Lilja Rafney Magnúsdóttir

Spilavíti eru „Víti til varnað...

Frá mbl.is

Ekki tókst að sækja efni

Frá visir.is

Ekki tókst að sækja efni

Skessuhorn á Facebook Skessuhorn á LinkedIn Skessuhorn á Twitter Skessuhorn á Instagram Skessuhorn ehf. kt. 560103-3870 - Kirkjubraut 56, 300 Akranes - Sími 433 5500 - Ritstjórn skessuhorn@skessuhorn.is