05. september. 2007 07:57
Í nýrri samantekt ríkislögreglustjóra fyrir árið 2006 kemur fram að 96 brot voru framin sem snertu ofbeldi gegn lögreglumanni. Miðað við meðaltal áranna 2000-2005 hefur orðið 19% fjölgun á þessum brotum árið 2006. Fyrstu átta mánuði þessa árs hafa 73 brot er varða ofbeldi gegn lögreglumanni verið tilkynnt. Segir ríkislögreglustjóri, að ef sama þróun haldi áfram út árið gætu brotin orðið fleiri í ár en í fyrra. Árið 2003 var bætt við tveimur nýjum brotaflokkum í málaskrá lögreglu; annars vegar „Fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt“ og hins vegar „Lögreglumanni tálmað að gegna starfi sínu“. Árið 2006 var fjöldi brota er féll undir „fyrirmæli lögreglunnar ekki hlýtt“ alls 149 sem er talsverð fjölgun frá því síðustu þrjú ár, þegar brotin voru að meðaltali 86. Brotum, sem varða tálmun á störfum lögreglu, hefur hins vegar fækkað, voru 15 árið 2006 en 19 að meðaltali 2003-2005.